Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:08:45 (1323)

2000-11-03 11:08:45# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér hefur verið lagt fram, frv. til laga um Námsmatsstofnun, gerir ráð fyrir að sú stofnun taki við því hlutverki Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála að annast prófagerð og námsmat. Ég verð að segja eftir að hafa lesið þetta frv. er mér ekki alveg ljóst hvað á svo að verða um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála eftir að þetta hlutverk hefur verið tekið frá henni og ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra gæti gefið mér svör við því.

Það er náttúrlega eðlilegt að sett séu ný lög um námsmat eftir að við höfum samþykkt ný framhaldsskólalög sem gera ráð fyrir samræmdum prófum í framhaldsskólum en ekki var gert ráð fyrir því í lögum um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála að hún annaðist prófagerð í framhaldsskólum.

En það er sérstaklega eitt sem ég rak augun í í frv. í 2. gr. sem ég er svolítið undrandi á. Ég hélt að allir hefðu séð að ákveðinn þáttur í framkvæmd samræmdra prófa hefur ekki haft góð áhrif að mínum dómi og mjög margra annarra á þróun skólastarfs í landinu. Það er sá þáttur að reikna út meðaleinkunn í hverjum skóla úr niðurstöðum samræmdra prófa og nota þetta í ákveðinni keppni milli skóla og byggðarlaga. Það er vitað mál að af mörgum ástæðum standa byggðalög mjög misjafnlega að vígi í þessu kapphlaupi og ég vil meina að þetta hafi haft sitt að segja í þeirri byggðaröskun sem hefur verið undanfarið þar sem fólk hefur farið að trúa vegna niðurstaðna úr samræmdum prófum að þeirra skólar á landsbyggðinni væru eitthvað lakari en þeir skólar sem börn ættu völ á t.d. í Reykjavík. Ég hélt að nú yrði tækifærið kannski notað og lögum breytt í sambandi við þetta.

Auðvitað er mjög gott fyrir nemendur að sjá hvar þeir standa á samræmdum prófum. Það er mjög gott fyrir kennara að sjá hvar þeir standa með sinn hóp gagnvart samræmdu prófi og hvað þarf að laga og hverju þarf að breyta en ég held að það kapp sem hér hefur verið efnt til kunni engri góðri lukku að stýra og það hefði verið einmitt tækifæri núna þegar sett eru ný lög um Námsmatsstofnun að breyta þessu og taka þetta út úr myndinni. Það virðist ekki vera ætlunin samkvæmt því sem ég les út úr 2. gr. frv.

Það er líka eitt annað sem gerir það að verkum að það hefði verið tækifæri til að taka þetta út nú. Ég veit ekki hvernig á að fara að því nú þegar sett hefur verið í lög að nemendur eiga kost á því að segja sig frá samræmdum prófum, t.d. upp úr grunnskóla, þá sé ég ekki hvernig það á að koma því við að halda áfram því samanburðarkapphlaupi sem hér hefur verið stundað á undanförnum árum.

Það er svo sem ekki fleira sem ég hef um þetta frv. að segja á þessu stigi en ég vildi gjarnan að það kæmi fram að ég hefði talið mjög gott tækifæri núna til að breyta þessu hugarfari og hafa samræmd próf sem eru til góðs þegar þau eru notuð á réttan hátt en ekki til þess að fjölmiðlar geti verið að velta sér upp úr hvaða skóli sé góður og hvaða skóli ekki vegna niðurstaðna á samræmdum prófum án þess að þeir hafi nokkra möguleika á að sjá hvaða ástæður liggja þar að baki.