Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:14:06 (1324)

2000-11-03 11:14:06# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er að sjálfsögðu rétt með farið að þörf er á breytingu laga um Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála í ljósi þeirra breytinga sem hafa verið gerðar á lögum upp á síðkastið um samræmd próf í framhaldsskólum og fleira því tengt. Ég vil taka undir gagnrýni síðasta ræðumanns varðandi það ofurkapp sem lagt er á samræmt próf og stefnu hæstv. menntmrh. í þeim efnum sem hefur verið gagnrýnd í þingsölum og er kannski ekki tilefni eða ástæða til að fara djúpt ofan í þau mál hér. Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra um þá áráttu sem virðist vera hjá hæstv. ríkisstjórn að breyta alltaf nöfnum á stofnunum þegar hlutverk þeirra eru endurskipulögð og lýsa þeirri skoðun minni að mér þykir nafnið Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála afar lýsandi og skýrt. Það gefur mjög vel til kynna hvert hlutverk stofnunarinnar er og ég sé ekki að því eigi að breyta í grundvallaratriðum þannig að ég sé ekki þörfina fyrir því að breyta nafni stofnunarinnar í Námsmatsstofnun og finnst mér orðið Námsmatsstofnun hljóma hálflokað, klént og ankannalegt. Ég hefði gaman af því að fá hæstv. menntmrh. til að svara því í einhverjum orðum hvað ráði þessari hugmynd. Ég lýsi vantrú á því að þetta sé rétt stefna að breyta alltaf nöfnum á stofnunum hins opinbera þegar hlutverk þeirra er endurskipulagt eða eitthvað við því hreyft.

Að öðru leyti vil ég segja það að hv. menntmn. Alþingis kemur til með að fjalla um þetta frv. og leita umsagnar um það hjá þeim aðilum sem láta sig þetta mál varða og varðandi samræmdu prófin er auðvitað ekki séð fyrir endann á þeirri umræðu, hún er sígild og á eftir að halda áfram og áherslumál ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar í þeim efnum eru nokkuð klár.