Námsmatsstofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:23:13 (1326)

2000-11-03 11:23:13# 126. lþ. 20.10 fundur 176. mál: #A Námsmatsstofnun# (heildarlög) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og ég er alveg sátt við það að rannsóknir færist inn í háskólana frá rannsóknastofnuninni ef meiningin er að leggja hana niður, þ.e. ef fjármagnið færist með líka. Það hlýtur að vera hugsunin.

Hæstv. ráðherra mátti ekki skilja mig svo að þó að ég áttaði mig ekki alveg á því með því að lesa þetta frv. hvort meiningin væri að leggja stofnunina niður eða ekki og spyrði um hvort svo væri, að ég væri eitthvað ósátt við þá skipan mála. Ég held að það geti í sjálfu sér verið mjög rétt stefna að einmitt, eins og hæstv. ráðherra sagði, að færa þessar rannsóknir inn í háskólana.

Ég vil vara við því sem mér finnst koma fram í máli hæstv. ráðherra og mjög margra annarra, og það er alveg rétt hjá honum að hann er ekkert einn um þessa skoðun, að það er ekki samasemmerki milli góðs skóla og einkunna endilega. Það getur verið svo fjölda margt sem fer fram í skóla sem gerir hann að verulega góðum skóla jafnvel þó að nemendur þar nái ekki einhverjum himinháum einkunnum á samræmdum prófum og ég vil vara við því að þarna séu sett samasemmerki á milli.

Svo vil ég spyrja hæstv. ráðherra vegna þess sem stendur í 4. gr. þar sem er verið að veita sérstaka heimild til að bjóða út vissa þætti og þá væntanlega í prófagerð og prófayfirferð. Er þetta eitthvað sem stendur til að auka frá því sem nú hefur verið? Ég verð að segja að þó að útboð geti átt heima á mörgum stöðum þá finnst mér þau ekki endilega vera sjálfsögð í þessum þætti.