Blindrabókasafn Íslands

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:36:40 (1333)

2000-11-03 11:36:40# 126. lþ. 20.11 fundur 177. mál: #A Blindrabókasafn Íslands# (verkefni og stjórn) frv., PBj
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:36]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við frv. sem mér sýnist fyrst og fremst vera til þess að efla og bæta starfsemi Blindrabókasafns Íslands sem hefur á undanförnum árum gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir landsmenn, ekki síst fyrir hinar dreifðu byggðir sem eiga erfiðara með aðgengi að efni sem Blindabókasafnið hefur verið að miðla og mér sýnist allt sem hér er vera frekar í þá veru að efla starfsemina.

Hvað snertir 2. gr. þar sem lagt er til að starfsemi námsbókadeilda geti einnig þjónað grunnskólanemendum, þá hlýtur það að vera til mikilla bóta. Ég vil vekja athygli á því að við flutning grunnskólans til sveitarfélaga og á þeim árum sem síðan hafa liðið hafa námsgögn sem áður voru í miðlægri nýtingu frá fræðsluskrifstofum deilst nokkuð víða og aðgengi einstakra nemenda að námsgögnum eins og hljóðbókum og fleiru sem var á vettvangi þeirra er misjafnara nú en áður. Þarna hefur Blindrabókasafnið komið inn og aðstoðað áður og mun vafalaust gera það í ríkari mæli með eflingu stofnunarinnar sem er af hinu góða. Ég vil sérstaklega lýsa yfir ánægju minni með þennan þátt.