Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:25:36 (1337)

2000-11-03 12:25:36# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að það frv. sem við ræðum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis skuli vera komið fram því að hvort sem komi til þess að við vinnum eða finnum kolvetni í landgrunninu eða annars staðar þá held ég að það sé mjög mikilvægt að um þetta sé mjög skýr rammalöggjöf enda í samræmi við þá stefnu sem menn eru að reyna að framkvæma nú um stundir að það sé almenn löggjöf um auðlindir og nýtingu þeirra. Ég fagna mjög að þetta frv. skuli vera komið fram og lít kannski á það sem tæknilegan galla það sem stendur hér, og menn voru að vitna til áðan, að lögin þyrftu kannski ekki að vera vel úr garði gerð sökum þess að líkur til þess að finna eitthvað væru ekki sérlega miklar.

Almennt vil ég lýsa því að ég er mjög ánægður með að þetta frv. skuli vera komið fram.

Það fyrsta sem stingur í augu þegar maður les þau ákvæði sem hér er að finna er spurningin um það hvort þetta frv. beri með sér stefnubreytingu að því er varðar hugmyndafræði á bak við nýtingu auðlinda því að í þessu frv. er ekki að finna skýr ákvæði um afgjald vegna nýtingar auðlindanna. Það virðist vera í þessu frv. valkvætt en hér eru ekki á ferðinni skýr ákvæði um að greitt skuli einhvers konar afgjald fyrir að nýta auðlind, þ.e. finnist hún, sé hún til staðar. Ég velti því fyrir mér í ljósi þeirrar nýlegu lagasetningar sem hér hefur farið í gegn og eins og varðar þjóðlendulögin, landgrunnslögin og rannsóknir og nýtingu á auðlindum á landi þar sem hugmyndafræðin í þeim lögum er almennt sú að greitt skuli fyrir nýtingu þeirra auðlinda. Í þessu frv. er frekar um valkvæðan möguleika að ræða. Í ljósi nýlegrar skýrslu sem auðlindanefnd sendi frá sér þar sem hin almenna stefnumótun er sú að greiða skuli þetta gjald þá beini ég þeirri spurningu til hæstv. viðskrh. hvort í frv. felist einhver stefnubreyting að því er varðar hugmyndafræðina eða hvort nefnd sé aðeins ætlað að fjalla um þetta frekar.

Í umræðunni hafa hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og Svanfríður Jónasdóttir farið yfir þau atriði sem vert er að skoða og staldra við. Ég vil kannski aðeins taka undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur eða athugasemdir hennar við 8. gr. og auglýsinguna og möguleika ráðherra á að veita leyfi án auglýsinga. Ég held að mjög mikilvægt sé að það verði skýrt frekar.

Þá vil ég einnig vekja athygli á 19. gr. en þar virðist mér vera einhver hugsanavilla á ferðinni, þ.e. ef ég fæ með leyfi forseta fæ að lesa beint upp úr þessari grein:

,,Nái kolvetnisauðlind inn á svæði þar sem tveir eða fleiri hafa rannsóknar- og vinnsluleyfi er leyfishöfum skylt,`` þ.e. leyfishöfum er skylt að gera með sér samstarfssamning en takist það ekki er iðnrh. heimilt að kveða á um innihald hans, þ.e. takist aðilum ekki að ná samstarfssamningi, þá verður valkvæmt hvort slíkur samningur verður til eða ekki því að ráðherra hefur þá heimild til þess að kveða á um innihald hans en virðist ekki vera skylt að koma slíkum samningi á. Ég held að hér sé um að ræða smávegis tæknilegan misskilning á þessu frv.

Í 21. gr., virðulegi forseti, er kveðið á um að við veitingu leyfis eða samþykkis fyrir starfsemi samkvæmt þessum kafla skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Þetta ákvæði fullnægir vitaskuld á engan hátt þeim nútímakröfum sem gerðar eru til nýtingar auðlinda og á sama hátt þarf ekki að fara um það mörgum orðum að nýting auðlinda sem hefur það m.a. í för með sér að dæla upp olíu að hættan á umhverfistjóni í tengslum við það hlýtur að vera mjög veruleg. Við þurfum því að gera mjög skýrar kröfur til þess hvað átt er við og komi í framtíðinni til vinnslu á þessum auðlindum, hvernig menn ætla sér að stjórna því þannig að það sé sem best í samræmi við umhverfið og náttúruna. Hvað sem öðru líður held ég að þeim viðhorfum um að náttúran njóti vafans við aðstæður eins og þessar sé gert það hátt undir höfði að undan því verði ekki vikist að skýra þetta mun betur en hér er gert.

[12:30]

Að undanskilinni þessari meginspurningu minni til hæstv. iðn.- og viðskrh. um það hvort með þessu sé verið að hverfa frá þeim hugmyndum sem hér hafa verið uppi núna um nokkurt skeið að almennt skuli greiða gjald fyrir nýtingu auðlinda og að afgjald af því skuli renna til þjóðarinnar vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég fagna mjög þessu framkomna frv. og lít svo á að það sé skylda Alþingis og stjórnvalda að hafa í gildi og koma á ákveðinni rammalöggjöf um þessa hluti. Ég segi því enn og aftur: Ég fagna þessu frv.