Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:32:17 (1338)

2000-11-03 12:32:17# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:32]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á umhverfismatið og það er rétt að auðvitað þarf að gæta þess. Ég kom inn á það áðan hvort lög um umhverfismat væru þannig úr garði gerð að hugsað hefði verið til þess að það gæti hugsanlega orðið olíuvinnsla við Ísland. Við megum gæta okkar á því og hugsa um það hvar slys verða á sjó vegna olíuleka. Það eru ekki borpallarnir sem hafa valdið vanda svo við tökum sem dæmi Norðursjó. Þeir eru ekki vanamálið. Það eru olíuflutningaskipin sjálf, þar hefur vandinn verið, og siglingaleiðir þeirra.

Það er dálítið merkilegt að einmitt daginn eftir að ég spurði hæstv. samgrh. um starf nefndar sem er að skoða siglingaleiðir olíuskipa og skipa sem sigla með hættulegan varning hér við land fórst skip við strendur Frakklands með fimm þúsund tonn af mjög hættulegum mengandi farmi.

Það sem ég er að segja hér og mér fannst hv. þm. aðeins ýja að var að það yrði að gera sérstaklega strangar kröfur um umhverfismat vegna borpalla. Það er rangt. Það er rangt vegna þess að við höfum til staðar þekkingu og reynslu sem við getum sótt til þeirra aðila sem hafa staðið í olíuborun um áratuga skeið og þar er mikið öryggi viðhaft. En ef við ætlum að gera hér einhverjar sérstakar kröfur þá gæti það leitt til þess að ekki nokkurt olíufélag hefði áhuga á að leita að olíu við Ísland.