Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 12:39:31 (1342)

2000-11-03 12:39:31# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[12:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við erum núna að ræða spennandi mál á Alþingi. Oft hefur Alþingi tekið til snarprar umræðu mál af minni toga en það sem hér er sett fram frv. um. Auðvitað gæti þetta frv., þegar að lögum verður, verið upphafið að grundvallarbreytingum í þeim þáttum sem skapa umgjörð um efnahagsmál okkar. Hins vegar er e.t.v. ekki bein ástæða til óhóflegrar bjartsýni og engin ástæða til þess að við förum strax að huga að því að okkar bíði óhemjulegur olíugróði, þaðan af síður að fara að eyða honum fyrir fram. En við eigum að sjálfsögðu að skoða stöðu okkar og hefðum átt að vera búin að því nokkuð fyrr og kanna hvort hugsanlegt sé að svo dýrmætan orkugjafa sé að finna í okkar efnahagslögsögu og landgrunni.

Það er umhugsunarefni að það er talsvert langt síðan Bretar hófu slíka könnun og Norðmenn og nú síðast Færeyingar. Þrátt fyrir að bornar hafi verið fram fyrirspurnir á Alþingi aftur og aftur á undanförnum árum og þessi mál tekin til umræðu með þeim hætti þá hefur dregist óhóflega að mínu mati að leggja fram þetta frv. og skapa þar með grundvöll fyrir því og ástæðu fyrir þau stórfyrirtæki sem leita eftir heimildum til að bora eftir olíu, að reyna að gera samninga við Ísland vegna þess að ekkert fyrirtæki mun gera það öðruvísi en fyrir liggi lög þar sem skýrt er kveðið á um þann ramma sem um þá starfsemi er settur. Þetta er mjög mikilvægt, herra forseti, og þess vegna eigum við að taka við þessu frv., fara mjög ítarlega yfir það og ekki síst þær ábendingar sem hafa komið fram hjá þeim sem hér hafa talað. Ég tek t.d. sérstaklega undir ábendingar þingmanna Samfylkingarinnar, þeirra Svanfríðar Jónasdóttur og Lúðvíks Bergvinssonar, varðandi leyfisveitinguna o.fl.

Auðvitað á umhverfismat að vera línan í öllum stórverkefnum á Íslandi, Íslandi sem kynnir sig sem hreint og ómengað land og ætlar að leita í atvinnuháttum sínum eftir enn annars konar samskiptum við útlendinga en þeim sem felast í því að fá þá til að koma hingað og fjárfesta í stóriðjuverum eða olíuborunum. Við eigum að vera ströng um ákveðin atriði og við eigum alltaf að skapa ramma um heilbrigða samkeppni án undansláttar. Þetta á að vera línan hjá landi eins og okkar og þannig er línan hjá nágrannalöndunum eins og kom svo vel í ljós í orðum Svanfríðar Jónasdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, sem var málshefjandi Samfylkingarinnar í þessari umræðu.

Herra forseti. Það kemur fram í upphafsathugasemdum við lagafrv. að það virðast engir tæknilegir þættir vera til staðar sem gætu komið í veg fyrir olíuvinnslu á landgrunni Íslands ef slíkar lindir fyndust í nægjanlegum mæli. Það kemur fram að lauslegt mat bendi til að hagkvæmt yrði að vinna lindir stærri en 100--200 milljónir fata sem er magn sem rúmast gæti í einum rúmkílómetra bergs, og í öðru lagi að nokkrar líkur séu á að almenn skilyrði fyrir olíu eða gasmyndun séu fyrir hendi í setlögum undan ströndum Norðurlands eða einn á móti tíu fyrir gas en einn á móti fjörutíu fyrir olíu. Það kemur líka fram að þessar líkur séu minni en svo að þær freisti olíufyrirtækja að svo stöddu en frekari rannsóknir gætu þó hugsanlega bætt þetta mat. Við skulum aðeins staldra við það að frekari rannsóknir gætu hugsanlega bætt þetta mat.

Síðasta vetur fór iðnn. á afskaplega athyglisverðan fund hjá Orkustofnun þar sem farið var yfir verkefni stofnunarinnar og önnur mál sem þingmenn iðnn. lögðu þar fyrir starfsmenn Orkustofnunar. Þar var m.a. rætt um möguleika á olíuvinnslu. Það kom fram að uppi eru hugmyndir um ákveðin svæði og það var líka talað um tvennt, mjög mikilvægar áframhaldandi forrannsóknir og að mikilvægt væri að setja lög um þessa möguleika.

Skömmu seinna var tekin fyrir á Alþingi fyrirspurn frá Guðmundi Hallvarðssyni og þessa heimsókn bar á góma. Þar kom fram að ríkisstjórnin hefur verið að setja í rannsóknir um það bil 2 millj. eða eitthvað á aðra milljón og að samráðsnefnd sem svo er kölluð og hefur unnið með þessi mál hafi óskað eftir að rannsóknir yrðu gerðar á árinu 2000, byggðar á tillögum nefndarinnar, og þær mundu hafa kostað 8 millj. kr. En af því að óvissa var um niðurstöður viðræðna við olíufyrirtæki var ekki tekin afstaða til þessara tillagna starfshópsins við gerð fjárlaga fyrir árið 2000 og við gerð fjárlaga fyrir árið 2000 héldu menn sig því eingöngu við fjárveitingu upp á 2 milljónir.

[12:45]

Það er ekki mikil framtíðarsýn í þessu eins og hefur komið fram í umræðunni og ekki flýtum við mjög fyrir þeim forrannsóknum sem Íslendingar verða sjálfir að gera til að ákveðnar upplýsingar liggi fyrir þegar rætt er við erlend félög eða fyrirtæki sem hingað kynnu að vilja koma. Auðvitað hefðum við strax í september 1999 átt að sameinast um að veita á fjárlögum þær 8 millj. kr. til að geta farið í frekari forrannsóknir. Það eru ákveðnar ransóknir sem Ísland sjálft þarf að gera þó að allir viti að Íslendingar sjálfir geta ekki farið í stóru rannsóknirnar sem skera úr um hvort hér er hægt að vinna olíu eða ekki.

Þess vegna spyr ég hæstv. iðnrh.: Hvaða fjárhæð er gert ráð fyrir til þessara forrannsókna í frv. til fjárlaga fyrir árið 2001? Ég hef ekki sjálf skoðað það og það er mjög mikilvægt að það komi fram í umræðu eins og þessari á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Það kom fram áðan --- 14 millj.) Kom það fram áðan, 14 millj.? Þá þarf ráðherrann ekki að endurtaka það.

Það kom fram í umræðum um þessi mál hjá Orkustofnun og í umræðunni um þessa fyrirspurn í fyrra að það er kannski fyrst og fremst út af Norðurlandi sem menn hafa fundið það út með dýptarmælingum sem Sjómælingar Íslands hafa gert á undanförnum árum að hugsanlega sé hægt að finna þar eða a.m.k. staðsetja visst misgengi þar sem setlögin eru þykkust og olíulíkur ættu að öðru jöfnu að vera hvað mestar og að með ákveðnum rannsóknum sé gert kleift að kanna með tiltölulega ódýrum og einföldum hætti hvort olía eða gas leki til yfirborðs eftir misgengjunum.

Þetta er auðvitað það sem er áhugavert --- hvað hafa rannsóknir sýnt hjá okkur? Þess vegna spyr ég: Hvaða önnur svæði er verið að tala um? Hvað er búið að gera af rannsóknum sem gefa okkur vísbendingar um hvar þessi svæði liggja? Þá er ég að tala um þetta svæði norður af Íslandi eða Öxarfirði. Hvernig er þessum málum háttað annars staðar, t.d. í lögsögunni? Ég geri mér grein fyrir því að það er verið að tala um svæðin frá Jan Mayen að Hatton-Rockall í suðri.

Ég átti sæti í utanrmn. á þeim tíma sem Eyjólfur Konráð Jónsson sýndi því hvað mestan áhuga að Íslendingar sýndu meira kapp í því að sækjast eftir Hatton-Rockall svæðinu og að Ísland ætti þar kröfu. Mér fannst hann tala á þeim tíma fyrir daufum eyrum en nú er einmitt Hatton-Rockall svæðið nefnt sem vænlegt svæði til olíuleitar, einkum austurjaðar þess, og Bretar og Írar hafa þegar veitt olíufyrirtækjum leyfi á þessu svæði. Auk Íslands hafa Danmörk, Færeyjar, Bretland og Írland gert kröfu til svæðisins og réttarstaðan því óljós. Þegar maður veltir því fyrir sér hversu mörg ár eru liðin frá því að við fórum að tala um rétt okkar til að gera kröfu til þessa svæðis er ekki laust við að sú tilfinning vakni að við höfum flotið sofandi að feigðarósi í þessum málum og ég beini þeirri fsp. til iðnrh.: Hvað hefur verið gert á þeim árum sem liðin eru? Fyrr í umræðunni var vísað til kröfu okkar samkvæmt hafréttarsáttmálanum. Þessi mál þarf að vinna með sérstökum hætti, hvernig hafa þau verið unnin á undanförnum árum?

Herra forseti. Það er enn eitt sem ég vil alveg sérstaklega undirstrika að gefnu tilefni, sem mér finnst afar mikilvægt, og það er í raun fyrsta efnisgreinin sem er 1. gr. Í 3. gr. II. kafla, Eignarréttur að kolvetni, segir einfaldlega:

,,Íslenska ríkið er eigandi kolvetnis skv. 1. gr. Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis eru háðar leyfi iðnaðarráðherra í samræmi við ákvæði laga þessara.``

Það er mjög mikilvægt að undirstrika að finnist olía hér við Ísland eða í landhelgi okkar, efnahagslögsögu eða landgrunni er hún óumdeild sameign okkar. Þetta er auðlind sem Íslendingar eiga. Ég ætla að óska þess, ef sú auðlind á eftir að verða eitthvað sem við getum unnið og fengið arð af, að okkur auðnist að fara þannig með þann arð bæði í fyrstu lögum sem sett verða til að skapa rammann um hugsanlega vinnslu og líka í framtíðinni að tryggja að sá arður auðlindar renni til þjóðarinnar. Það er ósk mín í upphafsumræðu, alvöruumræðu um olíuleit við Íslandsstrendur, sem er samkvæmt þessu frv. Og af því að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson hafa gert svo ágætlega skil hinum ýmsu efnisatriðum í þessu frv., þá held ég, herra forseti, að ég láti mér nægja þær spurningar sem ég hef borið fram við forseta. Ég undirstrika að það getur verið að við séum að byrja að ræða mál sem eigi eftir að verða stórmál bæði fyrir íslenskt atvinnu- og efnahagslíf.