Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 13:42:14 (1343)

2000-11-03 13:42:14# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um frv. Ég vil fyrst og fremst fagna komu þess hingað inn á þing. Það var reyndar sýnt hér í fyrravor til kynningar og legið hefur fyrir eða verið í farvatninu að löggjöf af þessu tagi yrði sett, enda ljóst að hún er forsenda þess að um áframhaldandi rannsóknir og ef svo vildi til einhvern tíma í framtíðinni vinnslu á kolefnum, olíu eða gasi yrði að ræða á íslenska landgrunninu. Ég held að hvað sem öllu öðru líður sé rétt og skylt að við Íslendingar höfum eins og allar nálægar aðrar þjóðir lagaramma af þessu tagi til að styðjast við og framtíðin verður svo að leiða í ljós hvað það hefur í för með sér. En í öllu falli væri óeðlilegt að það strandaði á skorti á skýrum réttarreglum að hér væri t.d. hægt að gera frekari rannsóknir en hingað til hafa verið gerðar á því hvort mögulega finnast auðlindir af þessu tagi í vinnanlegu magni á landgrunni okkar eða í efnahagslögsögunni.

Löggjöfin er sniðin að löggjöf nágrannalandanna og eins og hér kemur fram í fylgiskjali hefur verið litið til Færeyja, Grænlands, Noregs og fleiri landa í þeim efnum og það er að sjálfsögðu skynsamlegt og rétt. Að mörgu leyti má ætla að aðstæður t.d. við Grænland séu ekki ósvipaðar því sem gætu orðið hér ef til olíuvinnslu kæmi á hafsbotni þar sem allra veðra er von og möguleiki á hafís er til staðar, en Grænlendingar hafa eins og kunnugt er lagt mikla vinnu í það að reyna að sníða löggjöf sína að því að reynt sé með öllum ráðum að fyrirbyggja að umhverfisslys geti orðið þó til vinnslu kæmi við þær sérstöku aðstæður. Reyndar er einnig mikla reynslu að hafa í þessum efnum frá Noregi þar sem olíuvinnsla hefur verið að færast sífellt norðar á norska landgrunnið og menn eru að glíma við aðstæður þar í dag sem fyrir 10--15 árum hefði verið talið næsta ólíklegt að nokkurn tíma yrði reynt við.

Hér er að sjálfsögðu og með eðlilegum hætti byggt á þeirri löggjöf sem fyrir er um auðlindir hafsbotnsins og í 3. gr. er tekið skýrt fram að íslenska ríkið sé eigandi kolvetnis samkvæmt 1. gr. og að hvers kyns rannsóknir og vinnsla séu háðar leyfi íslenskra stjórnvalda í samræmi við ákvæði þessara laga. Um þetta er samstaða hygg ég vera og þarf ekki að fjölyrða neitt um það að þarna eigi tvímælalaust að byggja á sameignarákvæðum, að um sameiginlega auðlind þjóðarinnar sé að ræða og aldrei geti komið til framsals á henni heldur eingöngu úthlutun vinnsluréttinda eða nýtingarréttar sem aldrei hrófli við eignarhaldi íslenska ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar á þessari sameiginlegu auðlind.

[13:45]

Varðandi spurninguna um hvort líklegt sé að hér finnist í fyllingu tímans olía eða gas í vinnanlegu magni, þá hefur það kannski ekki mikið upp á sig að við þingmenn séum með getgátur út og suður í þeim efnum. Við höfum þó stundum rætt það á undanförnum þingum, ekki síst ég og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem er mikill kappsmaður í þessu máli og er það vel og á hann heiður skilið fyrir áhuga sinn á því. Ég hef stundum tekið að mér hlutverk bölsýnismannsins og varað við óhóflegri bjartsýni í þessum efnum ósköp einfaldlega út frá því að þegar horft er til landfræðilegra og jarðfræðilegra aðstæðna eru líkurnar um margt kannski heldur minni á því að auðveldlega vinnanleg jarðefni af þessu tagi finnist í nægjanlega miklu magni til þess að það mundi reynast arðbært að fara í slíka vinnslu. Það breytir að sjálfsögðu engu um að við eigum að hafa lagarammann til staðar og rétt og skylt er að ýta undir að rannsóknir séu gerðar og menn fái sem fyllsta vitneskju um hvað mögulegt sé í þessum efnum. Ég held reyndar að mestu líkur Íslendinga á því að eiga aðild að einhverjum olíugróða, ef svo má að orði komast, séu fólgnar í mögulegri sameign okkar á Jan Mayen eða Hatton-Rockall svæðinu þar sem vinnslumöguleikar væru sennilega meiri en á eigin landgrunni. Þó er engin ástæða til að útiloka að í setlögunum úti fyrir Norður- og Norðausturlandi gætu leynst möguleg vinnslusvæði og líklegt er að þar séu einhver kolefni í jörðu. Óvissan er meira fólgin í því hvort þau hafi safnast saman í nægilega miklu magni og séu finnanleg við aðstæður sem bjóða upp á vinnslu. Kannski verður þá aðalóvissan að lokum fólgin í spurningunni um arðsemi slíkrar vinnslu þegar eða ef á það reyndi að menn færu að reikna það dæmi út í alvöru.

Flestir eru þeirrar skoðunar að tæpast verði það á næstu 10--20 árum sem vinnsla við slíkar aðstæður verður samkeppnisfær við þær olíulindir aðrar sem menn hafa aðgang að í dag. Heilmikið hefur gerst á síðustu árum í þeim efnum að endurmeta vinnanlegan olíuforða jarðarinnar. Kemur þar hvort tveggja til, stóraukin tækni við rannsóknir og líka aukin tækni við vinnslu sem hefur gert vinnslu mögulega á svæðum og jafnvel endurvinnslu eldri svæða sem menn töldu áður útilokaða. Á það hefur stundum verið bent að olíuforðinn hefur haldist svipaður, þ.e. það hefur bæst nokkurn veginn jafnmikið aftan við það sem unnið er sl. 10--20 ár af þessum sökum. Samt er um tæmanlegan forða að ræða. Síðan hafa komið til sögunnar aðrir hlutir eins og áhyggjur manna af loftslagsbreytingum og gróðurhúsaáhrifum sem gera það að verkum að stóraukinn kraftur hefur verið settur í rannsóknir af öðrum orkugjöfum. Ef menn ná þar miklum árangri gæti að sjálfsögðu farið svo að ýmislegt yrði þess valdandi að menn mundu ekki ganga jafnnærri síðustu olíu- og gaslindum jarðarinnar og menn hefðu ella gert og aðrir orkugjafar komi til með að leysa þá af hólmi í meira mæli en nú er.

Þetta segi ég, herra forseti, til að mæla nokkur varnaðarorð gagnvart því að menn gefi sér það sem mjög líklega niðurstöðu að við verðum farin að útdeila olíugróða innan 10--20 ára. Ég tek það fram aftur að ég er ekki að útiloka að einhver slík vinnsla geti á endanum orðið niðurstaðan eða möguleg sameign okkar eða hlutdeild í vinnslu sem yrði t.d. unnin á Hatton-Rockall svæðinu eða Jan Mayen.

Nú stendur einmitt þannig á, herra forseti, að unnið er að því að lýsa eða móta kröfugerð Íslands á grundvelli ákvæða alþjóðahafréttarsáttmálans, landgrunnsákvæða hans. Það er mjög mikilsverð vinna og afar mikilvægt að þar verði vel haldið á málum Íslands hvað varðar að lýsa kröfum okkar til landgrunnssvæðanna suður og suðvestur af landinu. Ef vel tekst til og sanngjörn niðurstaða fæst mælir margt með því og ótvírætt að við eigum að standa á þeirri kröfu okkar að við eigum umtalsverða hlutdeild til auðlinda á þeim hluta landgrunnssökkulsins sem er tengdur Íslandi á Hatton-Rockall svæðinu. Hvort sem um yrði að ræða niðurstöðu sem byggðist á uppdeilingu svæðisins eða mögulegri sameiginlegri hlutdeild aðliggjandi landa ætti einhver hlutdeild Íslands að geta komið út úr þeirri niðurstöðu sem þar verður.

Eitt er víst og það er, herra forseti, að það hefur gildi í margvíslegum tilgangi að grunnrannsóknir af því tagi sem fara fram í aðdraganda þess að menn séu að reyna að meta líkur á olíuvinnslu verði gerðar. Við Íslendingar höfum notið góðs af rannsóknum annarra þjóða að þessu leyti, rannsóknum Rússa fyrr á árum, síðan Norðmanna og fleiri þjóða og átt einhverja aðild að þeim sjálfir nú upp á síðkastið. Þær auka vitneskju okkar um landið og landgrunnið og uppbyggingu jarðlaga á þessum slóðum og sú vitneskja getur verið verðmæt í margvíslegu tilliti sem grundvöllur ýmissa hluta, jafnvel þó að útkoman yrði ekki endilega umtalsverð vinnsla kolefnisauðlinda í kjölfarið.

Herra forseti. Ég tel að þetta mál sé á góðri leið og í réttum farvegi og vonandi vinnst Alþingi tími til að fara rækilega ofan í saumana á þessu máli í vetur og afgreiða það fyrir vorið. Ég held að það sé tímabært og rétt og skylt. Mér finnst í raun og veru óþarfi að taka það fram en nefni það þó af því að umræður urðu um það fyrir hádegishlé að við hljótum að sjálfsögðu að gæta ýtrustu umhverfisvarúðarsjónarmiða í umhverfislegu tilliti í öllu þessu ferli og ég hef gefið mér að um það geti ekki verið neinn minnsti ágreiningur. Hvort ekki sé nógu vel um það búið eins og frv. er úr garði gert, þ.e. með því einfaldlega að vísa yfir í lögin um mat á umhverfisáhrifum, skal ég svo sem ekki dæma um, en ég held að það sé þó að mörgu leyti eðlilegur frágangur að setja ekki sjálfstæð matsákvæði inn í löggjöf á mörgum stöðum heldur byggja á einni meginlöggjöf um mat á umhverfisáhrifum og vísa til hennar annars staðar þar sem það er eðlilegt að gera. Það er sú leið sem hér er valin og mér finnst fljótt á litið að það sé eðlilegt og eigi að geta verið algerlega fullnægjandi. Aðalatriðið er auðvitað það að enginn vafi leiki á því að menn ætli sér að fara þarna fram með fyllstu gát og varúð. Hins vegar kemur ekkert á óvart að menn séu tortryggnir um þessar mundir eins og hæstv. ríkisstjórn stendur að málum í hverju tilvikinu á fætur öðru þessa dagana og þessar vikurnar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð.