Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:21:23 (1347)

2000-11-03 14:21:23# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:21]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Herra forseti. Breytt fyrirkomulag rafmagnsöryggismála hefur áður verið gagnrýnt af þeim hv. þm. sem hér hafa lagt fram till. til þál. um endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála. Árið 1993 hóf iðnrn. vinnu að breytingum á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála og var þeirri undirbúningsvinnu lokið um áramótin 1996 þegar ný lög voru sett um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.

Ástæður fyrir umræddum breytingum voru fjölmargar. Má þar nefna að um langt árabil höfðu samtök rafveitna, rafverktaka og innflytjenda verið óánægð með fyrirkomulag rafmagnsöryggismála hér á landi, þá gætti óánægju hjá Sambandi íslenskra rafveitna með það að rafveitueftirlitsgjald var látið standa straum af öllum kostnaði við raffangaprófun Rafmagnseftirlits ríkisins. Starfsemi raffangaprófunar var einnig talin brjóta í bága við samninga Íslands við önnur ríki um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum. Einnig þótti það stangast á við hlutverk rafveitna að láta þær hafa ábyrgð á eftirliti með neysluveitum og skylda þær til að skoða allar nýjar neysluveitur.

Þær breytingar sem nú hafa verið gerðar á rafmagnsöryggismálum eru mjög í samræmi við þróun rafmagnsöryggismála í flestum nágrannalöndum okkar. Þær stuðla að því að draga úr eftirliti stjórnvalda en auka ábyrgð fagmanna, eigenda og umráðamanna raforkuvirkja og neysluveitna. Þetta hefur dregið úr kostnaði og tryggir öryggi neytenda. Þetta er gert m.a. með því að krefjast þess að rafveitur komi sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi til að tryggja öryggi eigin raforkuvirkja og rekstur þeirra.

Sama krafa er gerð til löggiltra rafverktaka, þ.e. að þeir vinni eftir skilgreindu gæðakerfi sem tryggi að öll verk sem þeir taka að sér séu unnin samkvæmt settum reglum. Óháðar faggiltar skoðunarstofur beita síðan úrtaksskoðunum við skoðun á verkum þessara aðila.

Lykilþáttur í þessu kerfi er faggilding. Með henni eru gerðar strangar kröfur til skoðunarstofa. Þær þurfa að standast viðamikla úttekt og hlíta reglubundnu eftirliti faggildingaraðila. Með faggildingu er hæfni skoðunarstofa tryggð sem gerir stjórnvöldum kleift að færa veigamikla hluti eftirlitsins út á almennan markað.

Allar þessar breytingar hafa verið unnar í nánu samstarfi við samtök rafveitna, rafverktaka og innflytjenda raffanga sem hafa fagnað þessum breytingum og telja umbjóðendur sína fyllilega í stakk búna til að mæta kröfum um aukna ábyrgð.

Á það skal sérstaklega bent að úrtaksskoðun með nýjum neysluveitum felst fyrst og fremst í skoðun á verklagi löggiltra rafverktaka og er unnið eftir skilgreindum verklags- og skoðunarreglum. Það er því ekki nauðsynlegt að skoða hvert einasta verk löggilts rafverktaka heldur er gengið úr skugga um að rafverktakinn yfirfari sjálfur öll eigin verk og tryggi að þau séu samkvæmt settum reglum.

Samkvæmt eldra fyrirkomulagi var rafveitum gert að skoða öll verk sem rafverktakar unnu og var það eftirlit alls ekki unnið eftir samræmdum verklags- og skoðunarreglum, né var samræmi í skoðunum á milli eftirlitssvæða. Nú er eftirlitið samræmt um allt land. Það sama á við um eftirlit með neysluveitum í rekstri þar sem úrtaksskoðunum er beitt til að afla upplýsinga um ástand neysluveitna í rekstri, en eigendum allra neysluveitna sendar upplýsingar um ástand þeirra.

Í september 1998 skipaði iðn.- og viðskrh. vinnuhóp til að meta árangur af breyttu fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála á þessum áratug. Nefndin var skipuð í samráði við Ögmund Jónasson alþingismann og varð að samkomulagi á milli ráðherra og hv. þm. að ráðherra tilnefndi einn fulltrúa, Guðmund K. Steinbach, rafmagnsverkfræðing, Ögmundur Jónasson tilnefndi Berg Jónsson verkfræðing, fyrrum forstjóra Ragmagnseftirlits ríkisins, og samkomulag varð um að Egill B. Hreinsson prófessor yrði formaður nefndarinnar. Vinnuhópnum var einkum ætlað að meta hvaða þróun hefði orðið varðandi eftirlit raforkuvirkja, öryggi neytenda, tilkostnað við rafmagnseftirlitið, flutning og notkun raforku og hvernig til hefur tekist að auka ábyrgð eigenda raforkuvirkja og þeirra fagmanna sem að raforkumálum koma.

Vinnuhópurinn skilaði af sér ítarlegri skýrslu og lagði áherslu á að skoða og meta breytt viðhorf og aðferðafræði í rafmagnsöryggismálum og eðli opinbers eftirlits almennt og rafmagnseftirlits sérstaklega. Sérstaklega var farið yfir þætti, svo sem ábyrgð og hlutverk hins opinbera, rafverktaka, eigenda búnaðar og óháðra skoðunarstofa. Athugað var fyrirkomulag úrtaksskoðana miðað við fyrri aðferðafræði. Farið var yfir fyrirkomulag eftirlits fyrr og nú með raflögnum í íbúðir og atvinnuhúsnæði svo og eftirlit með öryggi háspenntra og lágspenntra raforkuvirkja hjá rafveitum og stórum og smáum iðnfyrirtækjum. Skoðað var fyrirkomulag eftirlits með rafbúnaði á markaði og hvernig prófunum raffanga er og hefur verið háttað. Einnig skoðaði vinnuhópurinn heildarkostnað við rafmagnsöryggismál, fyrir og eftir þær breytingar sem gerðar hafa verið.

Vinnuhópurinn viðaði að sér upplýsingum af ýmsu tagi, m.a. með viðtölum við aðila er starfa að rafmagnsöryggismálum. Hélt vinnuhópurinn 23 formlega fundi og ræddi samtals við 39 sérfræðinga á þessu sviði. Það var mat meiri hluta vinnuhópsins að nægilegar upplýsingar væru fengnar með þeim viðtölum sem fóru fram og ekki hafi verið ástæða til að halda slíkum viðtölum eða upplýsingasöfnun áfram.

Niðurstaða vinnuhópsins var sú að núverandi ástand rafmagnsöryggismála og rafmagnseftirlits væri gott og ný aðferðafræði og hugmyndafræði með notkun úttaksskoðana, innri öryggisstjórnunar, faggiltra skoðunarstofa o.fl., myndaði traustan og góðan grunn fyrir framtíðarskipan þessara mála.

Herra forseti. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á eftirliti með öryggi neysluveitna og rafföngum endurspegla breyttar áherslur íslenskra stjórnvalda í eftirlitsmálum. Ábyrgðin hefur verið flutt frá ríkinu til þeirra sem vinna verkin og eiga vöruna.

Spyrja má hvort ekki sé betra og öruggara að láta opinbera eftirlitsmenn skoða hverja raflögn og hvert raftæki heldur en að aðeins sé hluti af heildinni tekinn til athugunar. Svar mitt er einfalt. Slíkt eftirlit er ekki við hæfi á okkar dögum né í samræmi við þær breytingar sem verið er að gera í nágrannalöndum og á alþjóðavettvangi.

Löggiltir rafverktakar fá löggildingu út á menntun sína og kunnáttu. Þeim ber skylda til að fylgja settum reglum um rafmagnsöryggi og yfirvara verk sín í verklok. Hið sama gildir um rafveitur. Sé staðið að því á viðurkenndan hátt undir eftirliti óháðrar ríkisstofnunar verður ekki þörf fyrir víðfemt og ómarkvisst opinbert eftirlit og komið í veg fyrir aukinn kostnað.

Þetta nýja fyrirkomulag er enn í mótun. Það á eftir að sníða af því ýmsa vankanta. En það er margfalt markvissara en eldra fyrirkomulag. Því er mikilvægt að segja skilið við fortíðina og halda áfram á sömu braut.

Í ljósi þessa tel ég að fyrirkomulag rafmagnsöryggismála sé gott og að ekki sé ástæða til að skipa nefnd til að meta reynslu af núverandi fyrirkomulagi og gera tillögur til Alþingis um nýskipan á þessu sviði.