Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:49:41 (1357)

2000-11-03 14:49:41# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:49]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Menn rekur alveg í rogastans yfir þeim miklu fullyrðingum hv. flutningsmanna um rafmagnsöryggiseftirlit í landinu. Það eru dálítið merkilegar kannanir sem þeir leggja til grundvallar, sem byggjast á einhverjum sögusögnum, eins og kemur hér fram í greinargerðinni ,,staðhæft hefur verið``, þetta er sem sagt Gróa á Leiti. Í greinargerð segir að hv. þm. flutningsmenn hafi sjálfir látið gera einhverja könnun. Úrtakið í könnuninni er 600, en aðeins 200 svarað.

Herra forseti. Ég velti því fyrir mér hverjir það eru sem svara. Eru það verktakarnir úti á landi eða eru það þeir sem hafa ekki staðið sig, eða hvernig var farið ofan í svörin frá þessum aðilum? Það er alveg ljóst, herra forseti, að ekkert eftirlit er fullkomið en ég held að allir þeir rafverktakar sem vinna í þessu fagi í dag og hafa unnið samkvæmt bæði nýja og gamla kerfinu og hafa bókhaldið sitt í lagi eru mjög ánægðir með það kerfi sem er við lýði í dag. Það er staðreynd og það ætti hv. þm. Gísli S. Einarsson að vita manna best enda hefur hann aðgang að góðum rafverktökum sem ættu að geta sagt honum sannleikann í málinu.

Herra forseti. Þess vegna spyr ég hvernig var farið ofan í þá könnun sem liggur fyrir og þeir segjast hafa látið gera sjálfir, hv. þm., sem er nú út af fyrir sig dálítið sérstakt að það sé gert af flutningsmönnum sjálfum en ekki fengið í hendur hlutlausum aðilum sem eru til þess lærðir að gera kannanir sem geta talist hlutlausar.