Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 14:58:52 (1361)

2000-11-03 14:58:52# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Hinir ágætu hv. þm. Ögmundur Jónasson og Gísli Einarsson hafa lagt fram nokkuð athyglisverða till. til þál. Hv. þm. staðhæfa að rafmagnseftirliti sé ábótavant í landinu. Þetta er að mínu mati afar alvarleg fullyrðing. Rafmagnseftirlitið er enn opinbert og ég trúi því ekki að þeir hafi neitt út á það að setja. Það er enn þá opinbert og nú undir umsjón Löggildingarstofu.

(Forseti (GÁS): Það er hv. 5. þm. Reykn. sem hefur orðið.)

Megintilgangur breytinga á rafmagnsöryggismálum á sínum tíma var að auka ábyrgð fagmanna, eigenda og umráðamanna raforkuvirkja og þá um leið líka raflagna og dregið var úr beinum afskiptum stjórnvalda á eftirlitinu. En af hverju að breyta þessu á sínum tíma? Jú, það var til þess viðhalda ekki bara ágætu rafmagnsöryggi, heldur einnig auka öryggi neytenda til að draga úr kostnaði við rafmagnseftirlit og til að bæta þjónustu við neytendur og gera hana skilvirkari.

[15:00]

Mikil gagnrýni hafði lengi verið uppi um fyrirkomulag rafmagnsöryggismála eins og hæstv. iðn.- og viðskrh. kom hér inn á og hún fór ágætlega yfir þá sögu. Það var m.a. skoðun Sambands íslenskra rafveitna að eftirlit með neysluveitum ætti ekki að vera í þeirra höndum, þar sem hlutverk rafveitna væri fyrst og fremst að framleiða, dreifa og selja raforku. Ég vil einnig geta þess að rafveitugjaldið var á sínum tíma látið standa undir kostnaði við raffangaprófun Rafmagnseftirlits ríkisins. Raffangaprófun var í sjálfu sér orðin úrelt vegna samninga Íslands um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum.

Svo við förum aðeins nánar í þetta þá tók fyrirkomulagið á sínum tíma út yfir allan þjófabálk þegar eftirliti með rafföngum var ætlað að skila ríkissjóði töluverðum fjármunum með því að leggja 4 þús. kr. skráningargjald á hvert raffang, hvert einasta raffang. Markaðseftirlitsgjald átti að vera 20 þús. kall og síðan prófunargjald frá 5 þús. og upp 100 þús. kr. Til að átta sig á þessu verðum við að hafa í huga að það eru meira en 40 þús. skráningarskyld rafföng á markaðnum. Og hvað þýðir það? Slík skráning hafi kostað 160 milljónir. Hvert fer það? Það fer auðvitað beint í verðið á rafföngunum sjálfum sem neytendur síðan greiða. Til að geta sinnt þessu eftirliti hefði gamla rafmagnseftirlitið um leið þurft að fjölga mjög tæknimenntuðu fólki til að anna eftirspurn því að þeir tíu starfsmenn sem þá störfuðu í rafprófunardeildinni hjá eftirlitinu náðu einfaldlega ekki að anna eftirspurninni vegna mikils álags. Kostnaður vegna þessa og þar að auki tækjakaupa hefði aldrei orðið minni en 200 milljónir. Af hverju ættum við líka, þessi fámenna þjóð sem Íslendingar eru, að taka fram fyrir hendurnar á viðurkenndum prófunarstofum um heim allan sem skoða og prófa rafföng sem flutt eru hingað til lands? Af hverju á ríkið að eyða mörg hundruð milljónum í að prófa öryggi raffanga sem hafa verið margprófuð á erlendri grund?

Við verðum að átta okkur á því að með aðild Íslands að EES breyttust ýmsar forsendur á sviði rafmagnsöryggismála, þar með talið samningar sem lúta að raffangaprófun og vottun. Ef raffang telst löglega sett á markað í einu aðildarlanda EES og uppfyllir allar kröfur sem settar eru fram innan EES, telst það um leið uppfylla skilyrði annarra landa svæðisins. Því er óheimilt að koma í veg fyrir markaðssetningu slíkra raffanga. Þess vegna byggist markaðseftirlit nú á markaðsskoðunum sem geta verið úrtaksskoðanir eða skoðanir vegna sérstaks átaks eða ábendinga. Slíkar ábendingar geta verið afar nytsamlegar og öflugar, enda er markaðurinn og samkeppnin oft og iðulega besta aðhaldið í þessum sem öðrum efnum. Grundvöllur raffangaprófunar rafmagnseftirlitsins var því á sínum tíma brostin og sem betur fer var farið í það að breyta þessum málum og horfst í augu við nútímann og framtíðina.

Þessu skilvirka markaðseftirliti var komið á og framkvæmd þess falin óháðum, löggiltum skoðunarstofum á rafmagnssviði. Úrtaksskoðanir eru framkvæmdar í umboði Löggildingarstofu á háspenntum raforkuvirkjum og raflögnum í stað aðalskoðana. Núna er gerð krafa um að löggiltir rafverktakar komi sér upp innri öryggisstjórnun og er vel fylgst með því að svo sé gert. Ég vil, með leyfi forseta, benda á frétt í Mogganum frá upphafi þessa árs þar sem rætt er við Jóhann Ólafsson, deildarstjóra rafmagnsöryggisdeildar Löggildingarstofu. Þar segir:

,,Löggildingarstofa hefur svipt átta rafverktaka starfsleyfi sem ekki höfðu komið sér upp gæða- og öryggisstjórnunarkerfi fyrir 1. janúar 1999 ...``

Síðar í greininni segir: ,,,,Á síðasta ári unnum við að því að fá rafverktaka til þess að koma sér upp gæðakerfi á eigin starfsemi,`` segir Jóhann og bætir við að Löggildingarstofu hafi tekist að fá alla rafverktakana til að koma sér upp gæðakerfinu nema þá átta sem um ræðir, ...`` --- Og þeir voru sviptir leyfi.

Síðan er enn vitnað í Jóhann Ólafsson:

,,Ekki var því önnur leið fær fyrir okkur en að svipta þá starfsleyfinu. Þetta er gert til að tryggja öryggi almennings í landinu, sem á heimtingu á því að tryggt sé að þeir rafverktakar sem Löggildingarstofa veitir starfsleyfi fari eftir gildandi lögum og reglum.``

Þetta er að mínu mati afar skýrt. Það er gott eftirlit með því að rafverktakar fari eftir þessu gæðastjórnunarkerfi sem tryggir um leið að öll verk séu unnin í þeirra nafni og yfirfarin í verklok. Þannig er tryggt að verkið sé unnið eftir settum öryggisreglum. Til sjálfra rafveitnanna eru síðan gerðar sömu öryggiskröfur og þurfa þær að koma sér upp öryggisstjórnunarkerfi.

Ég eins og fleiri leyfi mér að efast um gildi könnunar hv. þm. sem hér var sett fram og m.a. er vitnað til í grg. með þáltill. en það er kannski annarra að fara betur í það. Ég vil líka minna á þá sem hafa gagnrýnt þessa könnun. Það er m.a. Samorka, samtök raforku-, hita- og vatnsveitna, sem komu m.a. fréttatilkynningu á framfæri eftir að þessi könnun var kynnt. Þar segir m.a.:

,,Það er áskorun við að taka upp kerfisbundna gæðastjórnun á rafmagnsöryggi að fá ráðamenn og stjórnendur fyrirtækja til að treysta gæðastjórnuninni til að vinna sitt verk. Þetta hefur Samorku og samtökum rafverktaka gengið ágætlega með á heimavígstöðvum. Í hálfnuðu verki er óheppilegt að þyrlað sé upp í fjölmiðlum niðurstöðum úr óvandaðri viðhorfskönnun.`` --- Þetta er því ekki eingöngu skoðun þingmanna. --- ,,Við slíkt dugar ekkert nema viðurkenndar aðferðir, annað kostar óþarfadeilur.

Markviss vinnubrögð Löggildingarstofu í almennri fræðslu- og upplýsingastarfssemi og átaksverkefnum gegn þekktum áhættuvöldum eru til fyrirmyndar. Allt tal um aukið eftirlit er óverðskulduð gagnrýni á vinnu fagmanna.

Samorka hvetur til að haldið verði áfram á sömu braut og barnasjúkdómar kerfisins verði lagfærðir án frekari kerfisbreytinga í rafmagnsöryggismálum.``

Þetta segir náttúrlega ansi margt. Að lokum, herra forseti, vil ég auðvitað taka undir það að við verðum ávallt að hafa þessi mikilvægu mál í stöðugri endurskoðun. Séu einhverjir vankantar á því kerfi sem nú er við lýði verðum við einfaldlega að sníða þá af. Við verðum að horfast í augu við það, það er alveg rétt, en við verðum um leið að treysta bæði Löggildingarstofu, þessu opinbera fyrirtæki, og þeim fagaðilum sem leggja sig alla fram til að öryggi allra í þessum mikilvægu rafmagnsmálum verði sem best.