Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:14:39 (1367)

2000-11-03 15:14:39# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:14]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alla vega ánægjulegt að heyra að hv. þm. Gísli Einarsson er ánægður með nýveiturnar og fyrirkomulagið þar. En varðandi gamalveiturnar þá bý ég sjálf í gömlu húsi í Hafnarfirði, byggðu 1931. Enn er nokkrum hlutum ábótavant hjá mér en ég hef eftirlit með því og læt löggilta rafverktaka fara yfir þetta. Ég veit að það er kominn tími á að skipta um hjá mér, alveg eins og ég hef í gegnum tíðina fylgst með hitavatnslögnum í mínu gamla húsi sem þegar hafa valdið mér óbætanlegu tjóni.

[15:15]

En ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Gísla Einarssyni að ef verulegar athugasemdir eru við það hvernig fyrirkomulagi á gamalveitum er háttað og eftirliti þar er verulega ábótavant --- og þá er ég ekki að tala um þessa könnun. Mér finnst hún ekki vera plagg í þessu máli. Það er mín skoðun. En ef aðrar rökstuddar ábendingar hafa komið fram í því að eftirliti með þessum gamalveitum sé ábótavant þá get ég tekið undir það að beina þeim ábendingum til hæstv. iðn.- og viðskrh. að kanna það mál sérstaklega. En ég sé ekki endilega ástæðu til þess að skipa nefnd í það mál.