Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:25:44 (1371)

2000-11-03 15:25:44# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:25]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Pálsson hefur eitthvað misskilið tal mitt um Sovétríkin áðan. Ég var að vísa í hans eigin málflutning eða öllu heldur skoðanabræðra hans í þessu máli. Málflutningurinn minnti mig svolítið á það sem maður heyrði stundum frá Sovétríkjunum þegar menn voru að lýsa ágæti þeirra kerfa sem þeir höfðu smíðað. Þau væru góð og allri gagnrýni jafnan vísað á bug.

Hv. þm. segir að miðstýrð eftirlitskerfi á vegum opinberra aðila séu slæm, þ.e. reynslan af þeim sé slæm. Við höfum Vinnueftirlitið, við höfum Hollustuverndina, eftirlitið með geislavörnum og mengunarvörnum, Heilbrigðiseftirlitið. Ég held að fullyrðingar og alhæfingar af þessu tagi séu harla vafasamar svo ekki sé meira sagt.

Hv. þm. segir að það sé mat rafvirkja og rafverktaka þeirra sem að þessum málum komi að kerfið sé mjög gott. Út á það gengur þessi umræða. Þar eru mjög skiptar skoðanir. Þess vegna réðumst við í þessa könnun og mér finnst rangt af hálfu hv. þm. Kristjáns Pálssonar að gefa sér afstöðu þeirra sem ekki svöruðu og leggjast í mikinn prósentureikning á grundvelli slíkra líkinda. Það finnst mér harla vafasamt að gera þannig að mér finnst þessum rökstuðningi nokkuð óbótavant.