Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:29:39 (1373)

2000-11-03 15:29:39# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:29]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rangt hjá hv. þm. að við séum að lesa úr þessum tölum á sama hátt. Það voru sendir út spurningaseðlar til 600 aðila, 200 svöruðu og síðan eru þau svör sundurgreind.

Ég er á þeirri skoðun að eftirlit eigi að vera á hendi algerlega óháðra aðila sem hafa ekki nokkurra viðskiptahagsmuna að gæta. Ég bjó í Bretlandi í nokkur ár. Þar var bifreiðaeftirlitið í höndum bílaverkstæðanna sjálfra og einhvern veginn var það svo að ég hafði það á tilfinningunni að aðfinnslurnar sem maður fékk væru í nokkru samræmi við verkefnaskort eða framboð og eftirspurn hjá þessu sama fyrirtæki. Mér hefði liðið heldur betur að þar væri óháður aðili að verki sem hefði ekki nokkurra viðskiptahagsmuna sjálfur að gæta. Ég tel að hið sama eigi að gilda í þessu tilviki. Ég tel óeðlilegt að hagsmunaaðilar á markaði sinni eftirlitinu. Við búum við frjálst markaðskerfi. Við erum að reyna að koma upp eftirliti á þessum markaði og mér finnst það eðlilegt og heppilegast að það sé í höndum óvilhallra aðila og rekið á vegum opinberra aðila.