Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:43:15 (1377)

2000-11-03 15:43:15# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Enginn hefur haldið því fram að neinn væri vitlaus í þessum málum. Auðvitað erum við öll að vinna að sama markmiðinu sem er að draga úr slysum og áföllum sem við verðum fyrir, því miður, þegar brennur.

Hins vegar þegar ég var að tala um traust eða hv. þm. hefur það eftir mér að ég hafi svo mikið traust á einstaklingum að ekki þurfi eftirlit og þá hefur hann algjörlega misskilið mig. Ég var að segja það að ég vonaðist til þess að þó umræðan í dag hefði ekki orðið til annars en þess að hver og einn liti í eigin garð og áttaði sig á því að hann sjálfur ber nokkra ábyrgð því að eins og hefur komið fram í umræðunni getur ríkið ekki séð um alla hluti. Fólk verður að átta sig á því sjálft að það ber mikla ábyrgð við að handfjatla þessi tæki og að reyna að sjá til þess að ekki verði skaðar því að rafmagnið er hættulegt og það er ekkert lamb að leika sér við.