Endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 15:50:13 (1382)

2000-11-03 15:50:13# 126. lþ. 20.13 fundur 13. mál: #A endurskoðun á fyrirkomulagi rafmagnsöryggismála# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef nú svolítið saknað rakanna og staðreyndanna í málflutningi hæstv. ráðherra vegna þess að mér finnst hæstv. ráðherra forðast að ræða kjarna þessa máls, þ.e. hvernig rafmagnsöryggi í landinu er fyrir komið.

Við höfum aldrei gert kröfu um eða aldrei nokkurn tíma haldið því fram að hér væru komin fram hin ýtrustu vísindi eða að hér væri fram reiddur einhver stórisannleikur. Við höfum bent á að hér hafi verið gerð könnun sem gefi vísbendingar um afstöðu þeirra sem starfa að þessum málum, rafverktaka sem hafa margir haft samband við okkur sem höfum beitt okkur í umræðu um rafmagnseftirlitið í landinu og lýst yfir áhyggjum sínum og við þóttumst fá þarna vísbendingu um að þeir aðilar sem höfðu samband við okkur væru ekki einir á báti vegna þess að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem svöruðu tekur undir þessi gagnrýnisviðhorf og sjónarmið. Við erum að óska eftir því með þessari þáltill. að skipuð verði nefnd fulltrúa allra flokka til að fara í saumana á þessum málum og leiða hið rétta í ljós.