Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:33:38 (1395)

2000-11-03 16:33:38# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., LB
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir góða ræðu sem hann flutti hérna áðan og kannski einhverja þá bestu sem hann hefur flutt í þinginu. En það breytir ekki hinu að líklega er ræðan miklu betri en frv. Þetta var framúrskarandi framsöguræða. En þegar maður les frv. yfir þá gengur þetta kannski ekki allt saman upp. Því segi ég þetta? Jú, líkt og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti hér á sýnist mér á öllu að í ljósi þess sem við ræðum gangi 1. efnismgr. 1. gr. þessa frv. ekki upp. Kjarni málsins er sá, eins og hæstv. samgrh. nefndi hérna áðan, að upptaka er hlerun sem er þá um leið brot á mannréttindasáttmálum, stjórnarskrá o.s.frv. nema menn hafi sérstaka lagaheimild. Þá spyr maður líka: Hvernig á þessi heimild að vera? Í stjórnarskránni er sérstaklega tekið á því að það þarf að vera sérstök og skýr lagaheimild til undanþágu ef rannsaka á samtöl o.s.frv. Og þá spyr maður: Hvernig á þessi heimild að vera?

Ef við lesum 1. mgr., sem hefur verið lesin áður en ástæða er til að gera einu sinni enn, þá hljómar hún þannig, með leyfi forseta:

,,Aðili þarf þó ekki að tilkynna sérstaklega um upptöku samtals þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.``

Það er alveg ljóst og það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þetta á ekki við um opinbera aðila heldur einkaaðila. Ég spyr: Hvenær má aðila vera þetta ótvírætt ljóst? Er það í tilvikum eins og þeim að Félag ísl. sparisjóða eða eitthvað þess háttar gefi út fréttatilkynningu um það að öll símtöl við sparisjóði séu tekin upp? Dugar það? Dugar það til þess að menn viti ótvírætt um þessa upptöku?

Dugar það líka ef stjórn Blaðamannafélagsins gefur það út að öll fréttaviðtöl eða viðtöl við menn séu tekin upp? Dugar það til þess að hægt sé að ganga að því vísu að ótvírætt sé að viðmælandi megi ætla að upptaka fari fram? Ég held, virðulegi forseti, að þetta gangi ekki upp svona. Ég skil hugsunina. En ég held að það hafi ekki náðst að fanga hana nægilega vel í frv.

Við ræddum í gær frv. frá okkur nokkrum í Samfylkingunni sem ég held að að þessu leytinu sé betra, þar er skýrt kveðið á um í hvaða tilvikum þessi heimild eigi við. Ég held, virðulegi forseti, í ljósi þess að við erum smám saman að sigla inn í upplýsinga- og tæknisamfélag þar sem að mínu viti þarf að gæta mjög vel að friðhelgi einkalífs í ljósi þeirra tækniframfara og möguleika sem því fylgja, að þeir möguleikar sem í því felast að komast að upplýsingum um einstaklinga o.s.frv. séu svo miklir að við verðum að ganga mjög gætilega um þetta svið. En um leið og við göngum gætilega verðum við að tryggja að við séum ekki að skaða ákveðna starfsemi sem fer fram í samfélaginu. Af þessum ástæðum lögðum við fram frv. sem hefur nokkurn veginn sömu hugsun og hér er verið að reyna að færa fram en að því leytinu skýrara að það er kveðið mjög afdráttarlaust á um það í frv. sjálfu í hvaða tilvikum heimilt er að taka upp, en ekki þannig að það sé lagt í mat hverju sinni því það að leggja þetta upp þannig að aðila megi vera ljóst eða ótvírætt megi ætla að um uptöku sé að ræða því það er svo teygjanlegt. Það er ekki möguleiki að festa þetta niður þannig, eins og stjórnarskráin gerir skýra kröfu um, að það þurfi sérstaka lagaheimild sem verður ekki skýrð öðruvísi en svo að það verði nákvæmlega að tilgreina í hvaða tilvikum þetta á við. Því sagði ég það í upphafi, virðulegi forseti, að mér fannst ræða hæstv. samgrh. til mikillar fyrirmyndar þó að mér finnist sjálfum að frv. megi bæta ögn. Þar sem ég sit í samgn. ásamt fleiri góðum mönnum er ég sannfærður um að við munum leggjast yfir þetta með einhverjum hætti og reyna að koma því þannig frá okkur að það verði í góðu lagi vegna þess að við erum alveg sammála um þau markmið sem að er stefnt þó að útfærslan sé kannski ekki alveg sú hin sama.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég vekja eftirtekt á niðurlagi 2. mgr. 1. gr., en þar segir, með leyfi forseta:

,,Um fyrirkomulag hljóðritunar og kynningu hennar fyrir almenningi og starfsmönnum stofnunar skal fara eftir skilyrðum sem Persónuvernd kann að setja.``

Ég velti því fyrir mér í þessu samhengi og í ljósi ákvæða stjórnarskrár og fleira sem ég hef vitnað til, hvort slíkt valdaframsal sé heimilt, þ.e. að fela eigi stofnun, ríkisstofnun, að setja almennar reglur um það hvernig kynning fyrir almenning skuli fara fram og eftir hvaða skilyrðum. Alþingi er þá að framselja vald um það hvenær slíkar upptökur mega fara fram. Ég er ekki viss um það heldur að þetta valdaframsal gangi upp. En ég ætla þó ekki að fullyrða um það. En ég er mjög efins um að þetta gangi upp og því geri ég þær athugasemdir sem hér hafa komið fram.

Þá er það 3. mgr. sem ég held að sé sömu annmörkum háð, með leyfi forseta:

,,Úrvinnsla hljóðritana`` --- þ.e. hugsanlega rannsóknin, það sem kveðið er á um í 71. gr. stjórnarskrárinnar --- ,,samkvæmt grein þessari skal vera í samræmi við lagaákvæði um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.``

Virðulegi forseti. Ég tel í ljósi þessa að þau markmið sem að er stefnt með frv. séu góð, en því miður held ég að útfærslan sé ekki eins og hún þyrfti að vera ef ætlunin er að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Því segi ég það, virðulegi forseti, að við sem erum í minni hluta samgn. munum virkilega taka á þessu máli. Eins og hæstv. samgrh. auglýsti eftir í gær þá munum við leggja honum lið. Hæstv. ráðherra sagði að honum væri nokkuð sama hvaðan gott kæmi. Í þessum efnum skulum við leggja honum lið við að koma frv. og reglunum í það horf að það standist bæði mannréttindaákvæði Evrópusáttmálans, ESB-tilskipunina margumræddu og ákvæði stjórnarskrárinnar. Það skal ekki standa á okkur í þeim efnum að koma þessu í almennilegan búning.