Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 16:47:38 (1397)

2000-11-03 16:47:38# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[16:47]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson fór um víðan völl í umfjöllun sinni um það mál sem hér liggur fyrir. M.a. gerði hann að umtalsefni Nígeríumann nokkurn. Ég veit ekki hvaðan úr Nígeríu hann er en hann gerði að umtalsefni að hugsanlegt væri að menn gætu ekki tekið upp samtöl þar sem menn væru að stunda ólögleg viðskipti ef ég skildi hv. þm. rétt. Það fannst honum vera mjög óeðlilegt.

Nú ætla ég ekki að leggja mat á hvort það sé óeðlilegt eða ekki eða hvort fréttamönnum sé betur treystandi en öðrum mönnum í þessu samfélagi eða ekki. Hitt er ljóst að nákvæmlega þessi spurning var borin fram í þeim dómi sem hæstv. samgrh. vitnaði til áðan. Það var nákvæmlega þessi spurning. Við lögfestum mannréttindasáttmálann 1994, ef ég man rétt, og dómstóllinn dæmdi á grundvelli hans þannig að dómstóllinn er búinn að dæma um það að slík upptaka sé hlerun, það er túlkun dómstólsins. Þá spyr ég hv. þm.: Er það svo að hv. þm. vilji, í þessu tilviki, að við lútum ekki niðurstöðu Mannréttindadómstólsins heldur setjum hjá okkur sérreglur vegna þess að Mannréttindadómstóllinn hefur svarað nákvæmlega sambærilegri spurningu og hv. þm. bar upp um Nígeríumanninn svokallaða. Ég beini því til hv. þm. hvort hann sé þeirrar skoðunar að í þessu tilviki eigum við ekki að lúta þeirri niðurstöðu sem Mannréttindadómstóll Evrópu komst að í þessu máli?