Fjarskipti

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:08:46 (1405)

2000-11-03 17:08:46# 126. lþ. 20.14 fundur 193. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:08]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram, hafi það valdið einhverjum misskilningi, að að sjálfsögðu er ekkert glæpamannafélag til í Grímsey, a.m.k. ekki svo að ég viti um. Dæmið var nefnt í því skyni að draga fram fáránleika hugmyndarinnar eins og hún birtist í frv. En hæstv. ráðherra spurði: Er þetta þá þannig að viðmælandinn megi ekki taka upp? Nú held ég að hæstv. ráðherra sé á einhverjum villigötum. Meginreglan er sú að það verður að tilkynna viðmælenda um upptökuna. Það er meginreglan. Það er alveg klárt. Hæstv. ráðherra flutti þessa fínu ræðu áðan og sagði nákvæmlega þetta.

Síðan er spurningin: Til þess að starfsemi samfélagsins ,,fúnkeri`` eins og henni er ætlað erum við að veita undanþágur og í þeim tilvikum í frv. því sem við ræddum í gær og er frá mér og fleiri hv. þm. Samfylkingarinnar, eru ákveðnum aðilum veittar undanþágur til að þessi samfélagsstarfsemi ,,fúnkeri`` án hindrana. Þar á meðal eru fréttamenn. Þar á meðal eru viðskipti o.s.frv. Meginreglan er sú að það þurfi að tilkynna. Þess vegna er það svo í því dæmi sem hæstv. samgrh. nefndi að ég, hv. þm. í þessu tilviki, er ekki undanþága frá meginreglunni.