Póst- og fjarskiptastofnun

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 17:26:46 (1415)

2000-11-03 17:26:46# 126. lþ. 20.15 fundur 194. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (GSM-leyfi) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[17:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf erfitt að gera upp á milli aðila sem sækja um tiltekna hluti sem eru takmarkaðir. En eitt af því sem liggur fyrir og kemur fram í fylgiskjölum með frv. er að gert er ráð fyrr að meta umsóknir og gera upp á milli aðila á grundvelli þess að leitast við að tryggja samkeppni. Það er einn af þeim mörgu þáttum sem þarf að meta við val á þeim umsóknum sem maður fær.

Gefum okkur að umsóknir bærust frá þeim fyrirtækjum, sem eru nú þegar á markaðnum, um þetta þriðja leyfi. Þá er alveg ljóst að það yrði úr vöndu að ráða því að það yrði ekki mikil samkeppnisviðbót ef það væru tveir aðilar að keppa og annar með tvö leyfi en hinn með eitt. Þess vegna er krafa um að þetta þriðja leyfi leiði til meiri samkeppni í þágu neytenda og því eru þessar reglur settar svona. Ég á því von á að ég komi með annað frv. Við þurfum að skapa umhverfið þannig að það sé jafnrétti á milli þeirra þriggja aðila sem reka þessi GSM-900 kerfi. Það vona ég að takist.