Þingvallabærinn

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:42:52 (1422)

2000-11-08 13:42:52# 126. lþ. 21.1 fundur 169. mál: #A Þingvallabærinn# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:42]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. ágæt svör og vil taka það sérstaklega fram að mér finnst mikilvægt að við setjum okkur inn í hvernig þessi mál eru að þróast og ekki síst þegar það gerist, sem gerðist nú á liðnum vikum, að átök eru um málefni Þingvallabæjarins og framtíð hans og framtíð prestssetursins í fjölmiðlum. Ég get alveg tekið undir að umfangsmikil verkefni þjóðgarðsvarðar gera það auðvitað að verkum að það er ekkert sjálfgefið að þjóðgarðsvörður og prestur eigi að vera einn og sami maðurinn. Það er auðvitað sérstök ákvörðun. En það kemur fram í máli hæstv. forsrh. að þjóðgarðsvörður muni þurfa að hafa þarna aðstöðu, Þingvallanefndin og prestar vegna kirkjulegra athafna. Hann nefnir það ekki, hæstv. forsrh., hvort hann telji að forsrh. eigi að hafa þar bæði persónulega aðstöðu eða einkaafnot og halda áfram að vera með aðstöðu fyrir gestakomur af því að það er fastur liður að erlendir gestir komi til Þingvalla. Hins vegar bendir hann á Þingvallanefndina. Tillaga á kirkjuþingi um að sóknarprestur á Þingvöllum mundi sinna að einhverju leyti Suðurlandi var afgreidd þannig, eins og kom fram í máli ráðherra, að áfram verði prestssetur á Þingvöllum. Tillagan er afgreidd þannig að við hljótum að skilja það svo að menn vilji ekki fara nýjar leiðir. Því spyr ég: Ef ríkisstjórnin ætlar að taka Þingvallabæinn til þeirra afnota sem hæstv. ráðherra hefur hér nefnt, hvernig á að leysa mál kirkjunnar? Mun ríkisstjórnin e.t.v. setja upp prestssetur utan þinghelginnar? Er það verkefni Þingvallanefndarinnar að leysa þetta mál og má skilja það svo að það sé Þingvallanefndin sem taki við þeim spurningum sem ég hef borið fram og svari þeim síðar?