Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:47:04 (1424)

2000-11-08 13:47:04# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hefur einangrunarstöð gæludýra í Hrísey sinnt fjölmörgum dýrum og gæludýraeigendum. Sú þjónusta hefur hins vegar ekki dugað og nær stöðin ekki að sinna eftirspurn. Þrátt fyrir fyrirhugaða stækkun verða biðlistar eftir sem áður til staðar. Þar fyrir utan er óeðlilegt að flestir þeir sem flytja gæludýr til landsins þurfi í raun að fara eins langt frá flugvellinum í Keflavík og mögulegt er. Það er erfitt fyrir dýrin. Sumir telja þessi löngu ferðalög dýranna vera brot á alþjóðasamþykktinni um flutningavegalengd dýra en jafnframt er þetta erfitt og mikið óhagræði fyrir þá eigendur dýranna sem búsettir eru á suðvesturhorninu.

Ég ætla mér ekki að efast um að farið er eftir ströngustu kröfum um sóttkví og smithættu þegar dýrin eru flutt norður til Hríseyjar og reynt er að halda einangrun dýranna. Megintilgangur með einangrunarstöð gæludýra eða sóttkví fyrir þau er að draga úr hættu á að innflutt dýr beri með sér sníkjudýr og sjúkdóma. Hrísey getur verið hentugur staður fyrir einangrunarstöð en hún er ekki eini valkosturinn.

Yfirdýralæknir hefur sagt að slík stöð gæti verið staðsett t.d. í Krýsuvík þar sem sóttvarnalæknir hefði að sjálfsögðu eftirlit með henni. Í mínum huga er raunhæft að ætla að forsendur séu fyrir slíkri stöð á þessu svæði, ekki bara rekstrarlega heldur umfram allt vegna öryggis sóttvarna og umönnunar dýranna. Landbrn. hefur þegar synjað einkaaðilum í Garðabæ um að reisa einangrunarstöð fyrir gæludýr. Ástæðan var sú að ekki mætti heimila einkaaðilum að reka slíka stöð. Mér finnst þetta hæpinn rökstuðningur þar sem einkaaðilar reka nú þegar einangrunarstöðina í Hrísey. En þetta er kannski ekki meginatriðið heldur það að mikil eftirspurn er eftir plássi í einangrunarstöðinni í Hrísey og að ljóst er að það færi mun betur með dýrin að vera í sóttkví á höfuðborgarsvæðinu þegar eigendur þeirra eru búsettir þar. Það hlýtur að vera æskilegt að einangrunarstöð gæludýra, að uppfylltum öllum öryggiskröfum, sé staðsett sem næst þeim stað þar sem dýrin koma inn í landið og verða síðan staðsett, að flutningsleiðin sé ekki áhættusöm og erfið fyrir dýrin heldur eins stutt og kostur er.

Þess vegna vil ég m.a. fá vitneskju um það frá hæstv. landbrh. hversu margir íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja nýta sér þjónustu einangrunarstöðvar í Hrísey og hvort hann hyggist ekki koma til móts við þarfir þessa fólks og dýra með því að fjölga einangrunarstöðvum.