Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:49:55 (1425)

2000-11-08 13:49:55# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:49]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Spurt er hversu margir á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum hafi nýtt sér þjónustu einangrunarstöðvar gæludýra í Hrísey sl. fimm ár.

Frá 1. janúar 1996 og til 1. nóvember 2000 hafa 448 dýr, hundar og kettir, verið vistuð í einangrunarstöðinni í Hrísey. Þar af eru hundar 312 og kettir 136. Af þessum fjölda eru 248 dýr í eigu fólks sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Ef spurt er um fjölda eigenda þessara dýra, þá eru þeir nokkru færri þar eð í sumum tilfellum eru fleiri en eitt dýr frá sama eiganda vistuð samtímis í stöðinni.

Í öðru lagi hafa sömu aðilar nýtt sér þjónustu stöðvarinnar oftar en einu sinni á þessu tímabili.

Spurt er: Hvert er hlutfall íbúa þessara svæða af þeim sem hafa nýtt sér þjónustu einangrunarstöðvarinnar sl. fimm ár? Af þeim 448 dýrum sem vistuð hafa verið í einangrunarstöðinni sl. fimm ár eru 55,4% í eigu fólks sem búsett er á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, en 44,6% í eigu fólks í öðrum landshlutum.

Spurt er: Hyggst ráðherra koma fleiri einangrunarstöðvum á fót og ef svo er, hvar þá? Ég hef ekki í hyggju að koma á fót fleiri slíkum einangrunarstöðvum. Stöðin í Hrísey hefur starfað í tíu ár og hefur rekstur hennar gengið áfallalaust þannig að ekki hafa borist til landsins smitsjúkdómar með þeim dýrum sem þar hafa verið vistuð. Þetta er mjög mikilvægt fyrir alla gæludýraeigendur í landinu og fyrir þá hreinleikamynd sem Ísland hefur. Hins vegar hefur það valdið erfiðleikum og óþægindum fyrir það fólk sem þarf að nýta sér þjónustu stöðvarinnar að hún hefur verið of lítil til að geta annað þeirri vaxandi eftirspurn sem verið hefur hin síðari ár og myndast hefur langur biðlisti eftir þjónustunni. Til að bæta úr þessu ákvað ríkisstjórnin í júní 1999 að ráðast í stækkun stöðvarinnar. Nú liggur það fyrir að hana er verið að stækka og fjármagn hefur verið veitt í það. Framkvæmdum við stækkunina er nú að ljúka og verður viðbótarhúsnæði tekið í notkun í byrjun desember nk. Um er að ræða tvöföldun á afkastagetu stöðvarinnar og er þess að vænta að biðlistarnir verði úr sögunni fyrir mitt næsta ár.

Þess ber þó að geta að ákveðinn undirbúning þarf áður en komið er með hunda og ketti til landsins. Dýrin þarf að sprauta gegn ýmsum sjúkdómum, taka sýni og fleira þannig að óhjákvæmilegur aðdragandi þess að geta flutt dýrin til landsins er um það bil tveir mánuðir.

Fyrir um tíu árum var tekin ákvörðun um þetta staðarval. Eyjarskeggjar fórnuðu ákveðnum eigin hagsmunum til þess að þetta væri hægt, að vilji þess ráðherra sem þá fór með þetta starf og þingsins varð í þessa veru. Auðvitað get ég sagt að það er ekki mitt að taka ákvörðun einn í þessu máli. Hér er ég með frv. fyrir þinginu um innflutning dýra og auðvitað fjallar þingið um það mál og tekur sínar ákvarðanir sem ráðherranum ber að fylgja.