Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:53:32 (1426)

2000-11-08 13:53:32# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:53]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrirspurnina og hæstv. ráðherra svörin. Í rauninni hafa komið fram meginatriðin í þessu máli. Annars vegar er um að ræða þá staðreynd að einangrunarstöðin í Hrísey sinnir ekki vaxandi eftirspurn þar sem gæludýraeign landsmanna, ekki síður á suðvesturhorninu þar sem 60% þjóðarinnar býr, fer mjög vaxandi.

Hins vegar er um að ræða þessa samfelldu smitleið sem er frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkurflugvallar og síðan norður og út til Hríseyjar. Þess vegna, út frá dýraverndunarsjónarmiðum og út frá öryggissjónarmiðum, er eðlilegt að færa stöð eða a.m.k. heimila rekstur slíkrar stöðvar sem næst flugvellinum þar sem flest þessara gæludýra koma inn og líka til þess að anna eftirspurn. Þar sem ég veit að hæstv. ráðherra er mikill dýravinur, eins og alþjóð veit, þá trúi ég því að hann muni taka undir þessi sjónarmið eins og hann reyndar hefur ýjað að.