Einangrunarstöð gæludýra í Hrísey

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:57:42 (1429)

2000-11-08 13:57:42# 126. lþ. 21.2 fundur 45. mál: #A einangrunarstöð gæludýra í Hrísey# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Auðvitað eru hagsmunir dýranna í fyrirrúmi. Ferðalagið byrjar ekki í Keflavík. Smitleiðin hefst ekki í Keflavík. Hún getur legið utan úr Evrópu eða Bandaríkjunum eða hvaðan sem er, en guði sé lof hefur ekki verið um smitleið að ræða hingað til.

Hv. þm. Hjálmar Árnason gerði þetta að umræðuefni. Maður sem ekki hefur hlaðið skammbyssu sína er hættulaus þar til hann hleður hana. Það hefur ekki verið um smitleið eða neitt smit að ræða á þessari leið. Þetta hefur heppnast vel en ég tek undir það sem dýravinur að þessi leið er auðvitað löng fyrir dýrið hvaðan sem það kemur úr heiminum og þetta til viðbótar þannig að það snertir mitt viðkvæma hjarta.

En ég er þakklátur fyrir hvernig þetta hefur tekist til og heppnast vel. Ég sagði áðan: Þingið tók þá ákvörðun fyrir tíu árum að fela eyjarskeggjum þetta í Hrísey af öryggisástæðum. Þeir hafa farið vel með þetta fjöregg íslenskra dýraeigenda og eiga þakkir skilið. Auðvitað er það þingsins að fjalla um þetta mál áfram og fjallar um frv. í vetur í þeim efnum.

Ég vek athygli á því að eins og ég rakti hér áðan er kannski á 4--5 árum um 450 dýr að ræða. Það er ekki mikill rekstur, það er ekki mikil afkoma, það er ekki stór bisness í því. Það eru ekki margir sem geta gert það að atvinnu sinni. Við Íslendingar erum ansi smáir oft og tíðum þegar eitthvað er um að vera. En við vökum yfir Hrísey. Ríkisstjórn, hv. þm. og samstarfsflokkur minn hafa tekið undir það að styðja fjárlagatillögur um að stöðin í Hrísey verði stækkuð og þar með hverfi biðlistar og staða bæði kaupendanna og dýranna batni.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu.