Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:16:58 (1437)

2000-11-08 14:16:58# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., PBj
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:16]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Ég fagna yfirlýsingum hæstv. félmrh. um nýbúamiðstöð á Vestfjörðum sem samþykkt var á Alþingi án mótatkvæða í fyrravetur. Ég vil minna á að það mál kemur til vegna frumkvæðis Vestfirðinga í upphafi. Vestfirðingar hafa haft frumkvæði að því að undirbúa stofnun þessarar nýbúamiðstöðvar og þrátt fyrir að 60% útlendinga séu á höfuðborgarsvæðinu, ég mun ekki gagnrýna þá tölu, þá vil ég upplýsa að einstaklingar frá 46 þjóðum bjuggu í Ísafjarðarbæ einum saman fyrir ári. Þar hafa verið haldnar mjög veglegar þjóðahátíðir eða samkomur þar sem farið hefur verið yfir málefni þessa fólks. Ég tel að þar sem Alþingi hafi samþykkt þetta einróma á síðasta þingi sé það mjög vel komið í höndum félmrh. að fylgja því máli eftir og ég treysti því að hann geri það.