Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:33:19 (1444)

2000-11-08 14:33:19# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég tek undir orð hæstv. félmrh. Páls Péturssonar um að málefni útlendinga heyra undir ein fimm ráðuneyti og gallana við það. En síðast í umræðunni um Schengen á sl. þingi var bent á að brýn nauðsyn væri á því að fram fari heildstæð endurskoðun á íslenskri löggjöf sem snýr að útlendingum en lögin sem við búum við núna eru frá 1965, um eftirlit með útlendingum, og svo höfum við löggjöf um atvinnuréttindi útlendinga. Hvorttveggja tel ég að sé ófullnægjandi bæði hvað varðar meðferð mála, sem snýr fyrst og fremst að verksviði Útlendingaeftirlitsins, svo og hvað varðar réttarstöðu útlendinga almennt, sérstaklega með tilliti til heilbrigðis- og tryggingakerfisins, félags- og skólaþjónustu. Í því tilliti er öll sýnin ávallt á útlendinga sem þiggjendur og ríki og sveitarfélög sem veitendur. Ég tel að við þurfum líka að horfa til hinnar áttarinnar og líta á hagsmuni íslensks samfélags af nýjum íbúum bæði í menningarlegum og efnahagslegum hagsmunum. Við þurfum að skoða þörf íslensks atvinnumarkaðar vegna fyrirsjáanlegrar umframeftirspurnar eftir vinnuafli tengt þeim aukna hagvexti sem spáð er og reiknað er með. Því finnst mér óhjákvæmilegt annað en að fram fari heildarendurskoðun eða heildarmótun innflytjendastefnu líkt og nágrannalöndin hafa gert.