Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:34:47 (1445)

2000-11-08 14:34:47# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er ákaflega brýnt að taka á málefnum innflytjenda og þess vegna hefur minn flokkur, Samfylkingin, lagt mikla vinnu í stefnumótun á því sviði. Segja má að þörfin kristallist í þeim orðum og upplýsingum hæstv. félmrh. að könnun, sem gerð var á högum útlendinga sem fluttust fyrir fjórum árum til Vestfjarða, leiðir í ljós að 40% af þeim er hér enn þá. Með öðrum orðum dregur hæstv. félmrh. þá rökréttu ályktun að þetta fólk vilji ílendast hér og verða íslenskir ríkisborgarar. Það þýðir að við þurfum að sinna ákveðnum skyldum gagnvart þeim.

Það sem mér rennur mest til rifja er að heyra sögur af afdrifum barna þessa fólks í skólakerfinu sem hingað kemur og vill dvelja hér á landinu, verða íslenskir borgarar þegar til langs tíma er litið. Mér segir svo hugur um ef við grípum ekki í taumana þar kunni svo að fara að innan skamms verði til hópur barna af útlendu bergi brotin sem nær ekki að fóta sig í íslenska skólakerfinu og getur orðið að jaðarfólki í íslensku samfélagi. Það brýnir fyrir okkur nauðsyn þess að móta stefnu í málefnum útlendinga, ekki síst barna af erlendu bergi brotin og hvernig hægt er að hjálpa þeim til að fóta sig í skólakerfinu. Það skiptir ákaflega miklu máli.