Sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:53:50 (1453)

2000-11-08 14:53:50# 126. lþ. 21.8 fundur 185. mál: #A sokkin skip og önnur mengunarhætta í sjó umhverfis landið# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Eins og hér kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, Jóhanni Ársælssyni, eru þessi mál í eðlilegum farvegi. Það eru til verulegar upplýsingar og út frá þeim er unnið í aðdraganda þess að hér verður lagt fram frv. til nýrra laga um varnir gegn mengun hafsins. Það er því alveg ljóst að núna stendur yfir vinna við þessi mál.

Langbrýnasta vandamálið hefur verið sú mengunarhætta sem stafar af El Grillo. Það skip hefur verið á botni Seyðisfjarðar síðan 1944 og líklega hefur lekið úr því meira eða minna síðan. Ég hef skoðað gögn í ráðuneytinu sem sýna að send hafa verið gögn frá bæjaryfirvöldum á Seyðisfirði um lengri tíma til umhvrn. og beðið um að tekið yrði á því máli. Nú á að gera það. Þetta verður væntanlega umfangsmikil aðgerð og nokkuð vandasöm en ég tel að við séum að gera afar vel með því að drífa í því að hreinsa upp El Grillo.

Eins og hér kom fram áðan er Hollustuvernd ríkisins að skoða annað skipsflak, þ.e. pramma í Hvalfirði og mun grípa til aðgerða verði það talið nauðsynlegt. Varðandi öll hin skipsflökin þá teljum við að engin bráðahætta stafi af þeim en menn munu núna við frumvarpssmíðina og þegar við tökum frv. til meðferðar hér á Alþingi skoða þau mál enn betur.