Jarðskjálftarannsóknir

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 15:04:25 (1458)

2000-11-08 15:04:25# 126. lþ. 21.7 fundur 100. mál: #A jarðskjálftarannsóknir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst, eins og hér kom fram, að það er hægt að nýta skýrsluna sem miðstöðin á Selfossi hefur tekið saman en hún var ekki send í umhvrn. Við höfum hins vegar kallað eftir henni og munum síðan fara yfir hana og sjá hvað við getum nýtt okkur varðandi þessi mál.

Það verður hins vegar að viðurkennast að jarðskjálftamálin hafa að mínu mati ekki verið í eðlilegum farvegi. Þar hefur verið núningur á milli stofnana og aðila og ríkt ákveðin samkeppni um þessi mál. Ég tel að það sé ekki málaflokknum til framdráttar að hafa málin áfram í slíkum farvegi.

Um þessar mundir hafa ráðuneytisstjórar viðkomandi ráðuneyta sem koma að þessum málum fundað og haft með sér samráð, m.a. vegna þess að menn vildu fá góðar tillögur um hvernig ætti að nýta það fjármagn sem ríkisstjórnin ákvað að láta renna til fórnarlamba jarðskjálftanna á Suðurlandi. Ráðuneytisstjórahópurinn hefur einnig skoðað hvort hægt sé að koma þessum málum í betri farveg, þannig að ekki verði sá núningur á milli stofnana og hópa sem við höfum séð hingað til. Ég bind miklar vonir við að við getum lært af jarðskjálftunum á Suðurlandi og þannig komið málunum í enn betri farveg en þau hafa verið í hingað til.