Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:16:58 (1464)

2000-11-09 11:16:58# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:16]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan þá deili ég áhyggjum hv. þm. af því hvernig farið verði með jöfnunarsjóðinn í framtíðinni. Ég er alveg sammála hv. þm. í þeim efnum. En Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skiptir sveitarfélög þessa lands gríðarlega miklu máli. Jöfnunarsjóðurinn er m.a. notaður til að jafna tekjur sveitarfélaganna, greiða til skólamála og ýmislegt fleira.

Varðandi álagningu fasteignagjalda þá er það ekki nýtt að sveitarstjórnarmenn úti á landsbyggðinni hafi verið óánægðir með álagningarstofn þeirra. Það er gamalt mál. Það er eldra mál og ekki aðeins þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Þegar við skoðum málið í heild sinni þá er ríkissjóður að leggja mikla peninga til viðbótar í rekstur sveitarfélaganna. Það er af hinu góða.

Ásteytingarsteinninn í þessum efnum, eins og ég sagði í fyrra andsvari mínu, er álagningin, spurningin um hvort sveitarfélögin nýti sér heimildir til að leggja á fasteignagjöld en þegar á heildarpakkann er litið --- ég fer ekkert ofan af því eftir að hafa rætt við sveitarstjórnarmenn og fylgst nokkuð vel með sveitarstjórnarmálum --- þá er það einungis útsvarsálagningin sem er ásteytingarsteinninn.