Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:22:14 (1467)

2000-11-09 11:22:14# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:22]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er vandlifað í þessum sal ef maður ætti að hafa þá reglu að ræða aldrei um hæstv. ráðherra nema þeir væru viðstaddir, þá yrði lítið talað hér. Þannig er það bara. Síðasta ræða var ákaflega undarleg en skiljanleg. Auðvitað svíður Sjálfstfl. undan því þegar bent er á þá staðreynd að þeir eru að hækka skatta á fólkið í landinu. Auðvitað svíður Sjálfstfl. þegar bent er á þann veruleika.

Herra forseti. Ég kallaði hæstv. forsrh. ekki inn í þessa umræðu. Hann gerði það sjálfur nú síðsumars þegar hann fór fram með þeim hætti að eftirtekt vakti og sagði við sveitarfélögin í landinu: Þið þurfið ekki meiri peninga. Reynið þið bara að stjórna af einhverju viti. Það voru kaldar kveðjur til hv. þm. á borð við Gunnar Birgisson. Það voru kaldar kveðjur til flokksbræðra hans í Garðabæ, á Seltjarnarnesi, í Hafnarfirði, í Reykjanesbæ og þá sveið undan því. En það var hæstv. forsrh. sjálfur sem með afskaplega sérkennilegum hætti blandaði sér inn í þessa umræðu, það var óbeint innlegg til þeirrar niðurstöðu sem við ræðum hér, skattahækkana.

Ég skil það vel, herra forseti, að Sjálfstfl. svíði undan þessu. Það er erfitt hlutskipti að horfast í augu við að Sjálfstfl., þessi flokkur sem ræðir um mikilvægi þess að einstaklingurinn fái að ráða sínu, að lækka þurfi skatta, ungliðarnir tala um 60 millj. kr. skattalækkun. En þegar til kastanna kemur og taka þarf ákvarðanir þá fara þeir fram með skattahækkun á almenning í þessu landi, á hinn almenna launamann svo að um munar.

Herra forseti. Ég skil formann þingflokks Sjálfstfl. afskaplega vel, að henni líði illa undir þessari umræðu. En ég get bara ekkert að því gert. Þetta er sjálfskaparvíti.