Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 11:24:31 (1469)

2000-11-09 11:24:31# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[11:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ekki hóf ég orðræðu í þessa veru. Það var hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sem tók að ræða sérstaklega hlutdeild forsrh. í málinu og kvartaði undan því að honum væri blandað í málið, oddvita ríkisstjórnarinnar sem leiðir þetta mál. Hún verður að eiga það við sjálfa sig.

Herra forseti. Þegar menn ræða hér blákalt, og hæstv. félmrh. datt í þann fúla pytt líka, að sveitarstjórnarmenn gætu bara ráðið þessu, þeir hefðu öll völd í hendi sér, á sama tíma og tölur sýna það að ef sveitarstjórnarmenn vítt og breitt um landið, með undantekningum þó, ættu að standa við þær skuldbindingar sem þeir hafa tekið á sig þá verði þeir að nýta þessar auknu heimildir í útsvari. Það er einfaldlega þannig að ríkisvaldið ákvarðar, sveitarstjórnirnar framkvæma. Þannig blasir þetta við, þannig er þetta.

Enn og aftur, herra forseti. Ég hef mikinn skilning á því að Sjálfstfl. líði illa. Á því hef ég mikinn skilning. Það liggur við að ég hafi samúð með þeim en svo er þó ekki.