Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:09:07 (1473)

2000-11-09 12:09:07# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að ég hefði unnið starf mitt á lokasprettinum við þröngar pólitískar aðstæður. Ég sagði að ég bæri nokkra ábyrgð á þessum tillögum. Ég hefði kappkostað að tillögurnar næðu fljótt fram að ganga og þyrfti ekki að eyða tíma í það að ræða niðurstöðuna eftir að nefndin hefði lokið störfum.

Ég hef ekkert undan samskiptum mínum við einstaka ráðherra að kvarta í þessu efni. Ég hafði eðlilega gott samráð við bæði sveitarstjórnarmenn og ríkisstjórnina í starfi mínu. Ég þurfti þess. Ég gerði það. Ég held að þeir geti alveg borið vitni um það, þeir sem ég hafði samband við. Það voru heilmikil samráð í kringum þetta og það tók tíma. Ég kappkostaði að ná þessari niðurstöðu og ég hef ekkert undan því að kvarta að ekki hafi verið horft á þær niðurstöður sem nefndin náði. Ég lagði á það kapp í sumar að stýra nefndarfundum þannig að töluleg niðurstaða um afkomu sveitarfélaga næðist sem best. Við erum með afar miklar upplýsingar um það í höndunum. Ég lagði það fyrir aðila. Ég hef ekki undan þeim samskiptum að kvarta.