Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:14:30 (1476)

2000-11-09 12:14:30# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:14]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrir tveimur árum hafði ég þá ánægju að sitja við fótskör hv. formanns fjárln. og yfirfara stöðuna. Þá hlustuðum við líka saman á alla sveitarstjórnarmenn á landinu nánast koma og bera upp áhyggjur sínar. Ég verð að segja að þessi samvera, sem ég þakka fyrir, verkaði svo sterkt á mig að ég hef varla á heilli mér tekið síðan af áhyggjum út af fjármálum sveitarfélaga.

Það koma núna loksins einhverjar tillögur og ég verð að segja það að mér finnst þær frekar léttvægar miðað við það sem ég hafði búist við og sérstaklega til að bjarga fjármálum skuldugra sveitarfélaga úti á landi. Ég sé einhvern veginn ekki að jafnvel þó að þær hækki útsvar um þetta eina prósent sem er gefið svigrúm til þá breytti það stöðu þeirra sem verst standa. Ég sakna þess að sjá ekki einhverjar tillögur til að taka t.d. á málefnum þeirra sveitarfélaga sem eru allra verst sett. Ég fagna því auðvitað að nú skuli komnar tillögur um að lækka fasteignaskatta á landsbyggðinni en ég er kannski hrædd um að sveitarfélögin úti á landi muni veigra sér við að hækka útsvar eins og þó er gefin heimild til. Þetta er þvert á þær væntingar sem fólki höfðu verið gefnar um að til standi að lækka álögur þeirra sem búa í dreifbýli. Ég er hrædd um að þetta gangi í öfuga átt þegar upp verður staðið.