Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:20:56 (1480)

2000-11-09 12:20:56# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:20]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu þetta fjárskilafrv. ríkisstjórnarinnar um að skila sveitarfélögunum til baka einum milljarði af þeim sex sem á hefur vantað og um hefur staðið heilmikill ágreiningur.

Það er mjög fróðlegt að fara yfir þetta mál. Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Það er greinilega orðið þannig að jöfnunarsjóður er orðinn ríki í ríkinu. Ég tel að það ætti að skipa nefnd þar og hefði gjarnan viljað sjá í niðurstöðum þeirrar vinnunefndar að málefni þess sjóðs yrðu dálítið skoðuð og hvernig úr honum er deilt því að það er vinna sem ég tel að ætti að fara í á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég vil því gjarnan taka undir það og það væri ekki verra ef af slíku gæti orðið.

Ef ég fer aðeins yfir helstu niðurstöður þessarar nefndar þá er afar fróðlegt að sjá hvað þetta hefur verið mikið í járnum hjá sveitarfélögunum. Í helstu niðurstöðum stendur, með leyfi forseta:

,,Allan síðasta áratug voru sveitarsjóðirnir reknir með halla. Mestur var hallinn 8,6 milljarðar árið 1994 en árið 1999 var hallinn 2,7 milljarðar.``

Við sjáum líka að hlutfall rekstrargjalda af skatttekjum er farið úr 78% upp í 91% sem segir að allt er dálítið mikið í járnum. Það fer ekkert á milli mála að með aukinni þjónustu sveitarfélaga færist þjónustan nær og það verður meiri þrýstingur á þá þjónustu sem sveitarfélög eru að veita þannig að mörg sveitarfélög, eins og kemur hérna fram, hafa séð sig knúin til að mæta kröfum íbúanna um aukið þjónustustig umfram fjárhagslega getu því að það er oft og tíðum algerlega óhjákvæmilegt.

Í tillögum nefndarinnar eru líka margar mjög góðar tillögur eins og með kostnaðarmatið og samráðið. Það er lykilatriði að þetta samráð verði niðurneglt. Eins er þarna tillaga um breytta verkaskiptingu og um að stofnkostnaður sjúkrastofnana, heilsugæslustöðva, framhaldsskólanna, heimavistanna og Innheimtustofnunar fari yfir á ríkið. Þar með væri sá kaleikur tekinn af sveitarstjórnunum. Þar erum við að tala um gríðarlegar fjárhæðir.

Með aukinni þjónustu sveitarfélaganna kemur mjög skýrt fram í töflu sem ég hef undir höndum að þegar útgjöld vegna þjónustu við fjölskyldur með börn eru skoðuð frá árunum 1991--1998 þá hefur hlutur sveitarfélaganna farið úr 30,8%s upp í 48,2% og að sama skapi lækkað hjá ríkinu. Þetta er afar fróðlegt. Þarna erum við að ræða um 18% hækkun á átta árum. Og ef við skoðum þjónustu við aldraða þá hefur þessi hækkun hjá sveitarfélögunum orðið 10% þannig að við vitum alveg í hvað þessir peningar sveitarfélaganna hafa farið. Um það þarf ekkert að deila þannig að um það eru allir sammála. Ég held því að það sé afar mikilvægt að þessi sameiginlegu verkefni og þetta samráð sé neglt algjörlega niður þannig að þessir aðilar geti báðir treyst hvor öðrum, aðallega þó að sveitarfélögin geti treyst ríkinu, og jafnframt að fá kostnaðarmat á ýmis þau frv. sem hér renna í gegn.

Þetta frv. er um að almenningur þurfi að axla þessa ábyrgð því að það er verið að vísa þessu yfir á sveitarfélögin þannig að þau þurfa að hækka sína skatta sem þessu nemur. Ég hefði talið afar eðlilegt að ríkið mundi lækka tekjuskatta á móti þannig að almenningur þyrfti ekki að axla þessa ábyrgð á þennan hátt. Ég á líka eftir að sjá hvað t.d. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga mun gera í borgarstjórn Reykjavíkur. Ætlar hann að axla þá ábyrgð sem sveitarfélögunum er falin? Ætlar Kópavogsbær með oddamann hér í þingi að axla sína ábyrgð? Ég á eftir að sjá það hvernig þetta muni gerast og ég á líka alveg eftir að sjá að aðaláherslan verði lögð á Reykjavík og þar verða skattakóngarnir taldir mestir. Við eigum eftir að sjá mjög margar bókanir og annað frá sveitarfélögum í landinu. Ég er hér með eina, með leyfi forseta, sem ég vildi gjarnan fá að lesa. Hún er í tengslum við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar og hljóðar svo:

,,Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir að skora á Alþingi að samfara auknum heimildum til hækkunar útsvars um 0,99% á næstu tveimur árum lækki ríkisvaldið tekjuskatt jafnmikið. Það er ljóst að í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur hallað á sveitarsjóðina og er það viðurkennt í niðurstöðum tekjustofnanefndar sveitarfélaga. Ástæður þess eru m.a. ákvörðun ríkisvaldsins og Alþingis í skattamálum og enn fremur varðandi kröfur um aukna kostnaðarsama þjónustu sveitarfélaga án þess að tekjur hafi fylgt. Lætur nærri að tekjuþörf sveitarfélaga af þessum sökum liggi á bilinu 5--6 milljarðar kr. árlega. Um þetta er ekki deilt.

Auknar hækkunarheimildir í útsvari til handa sveitarfélögunum mæta að hluta til þessum tekjuvanda sveitarsjóðanna. Hins vegar er óviðunandi að þessari sannanlegu tekjuþörf sveitarfélaganna sé mætt með auknum álögum á íbúa sveitarfélaganna. Þess vegna er mikilvægt að tekjuskattur ríkisins lækki til jafns við hækkun útsvars. Með þeim hætti er leiðrétt að hluta óréttlát tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga en án þess að skattgreiðendur borgi brúsann, án þess að komi til skattahækkana.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skorar á alþingismenn að verða við þessum réttmætu ábendingum.``

Undir þessa tillögu rita allir í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Svona mun líka fara í öðrum sveitarstjórnum. Það eina er að ég óttast örlítið um Reykjavík. Ég játa það. Þar er kannski sterkari stuttbuxnadeild en á mörgum öðrum stöðum. En ég held líka að það sé mjög mikilvægt að sveitarfélögin standi saman og axli ábyrgðina. Hins vegar held ég að það verði aukinn þrýstingur á að það komi lækkun á tekjuskatt á móti.

Málið fer núna til hv. félmn. til umsagnar og umfjöllunar og mér finnst heldur ekki óeðlilegt að svona skattafrv. fari líka til efh.- og viðskn. Ég tel það liggja í augum uppi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það má heldur ekki vera þannig að tíminn sé svo knappur að ekki sé hægt að fá skriflegt álit sveitarstjórnanna í málinu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að álit þeirra liggi fyrir. Þó svo að einhverjir verði teknir til viðtals í félmn. þá held ég að það sé afar mikilvægt að sveitarfélögin í heild og sveitarstjórnir í heild fjalli um málið og komi með sína niðurstöðu og kynni fyrir nefndinni. Það er ekkert að því að vera með stuttan umsagnarfrest. Þetta er mál sem var rætt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þannig að sveitarfélög eru alveg undir það búin að koma með álit á mjög stuttum tíma.