Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:29:06 (1481)

2000-11-09 12:29:06# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:29]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég átti sæti í þessari nefnd sem kom með þær niðurstöður sem við erum að fjalla um hér og ég fullyrði að þar var unnið mikið starf og fyrir liggja miklar upplýsingar um stöðu sveitarfélaganna í þeirri skýrslu sem nefndin skilaði af sér. Það ber að þakka öllum sem tóku þátt í þessari vinnu og ekki síst Sambandi ísl. sveitarfélaga sem innti mikið starf af höndum varðandi þær niðurstöður sem náðust og safnaði heilmiklum upplýsingum sem við unnum síðan út frá.

Í morgun hefur nokkuð verið rætt um þennan útsvarsálagningarstofn sem var ákveðið að hækka í áföngum þannig að 1. janúar geti sveitarfélögin hækkað útsvars\-álagninguna um 0,66% óski þau þess. Ég tel afar mikilvægt að sveitarfélögin hafi visst svigrúm í sinni skattlagningu. En ég get ekki tekið undir það hjá þeim sem hafa nefnt það að það eigi að sleppa hámarki á útsvari. Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir borgarana í þessu samfélagi að nokkurt öryggi ríki varðandi það hvernig skattlagningu er komið á og þess vegna sé mjög mikilvægt, enda er það í stjórnarskránni þannig, að það sé eingöngu hægt að leggja á skatta með lögum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að hér séu hámörk og jafnvel lágmörk --- þó held ég að það sé umræðu vert hvort það sé nauðsynlegt --- en að svigrúm sveitarfélaganna sé þá nokkurt þannig að þau geti sýnt hvað í þeim býr varðandi rekstur sveitarfélaga og geti þá búið þegnum sínum það umhverfi sem þau óska eftir innan ákveðinna marka.

[12:30]

Það er alveg ljóst að það er verið að gera töluvert miklar breytingar í skattaumhverfinu og eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. er verið að leggja mjög verulega inn í þennan skattapakka með því að barnabæturnar munu hækka. Það þýðir þá að það er verið að færa áherslurnar þannig að verið er að létta á skattlagningu til fjölskyldufólks og barnafólks. Það er auðvitað mjög mikilsvert fyrir fjölskyldupólitíkina í landinu að þannig sé hlutunum komið fyrir að álögum sé létt af barnafólki og ég held að það sé mjög nauðsynlegt að menn haldi því til haga einmitt í þessari umræðu að þetta skiptir mjög miklu máli og við erum hér allan tímann að tala um álögur á einstaklinga. Skattar lenda hvergi nema hjá þegnunum á endanum þannig að við erum að breyta þessu umhverfi til hagsbóta fyrir fjölskyldufólk og það er mjög mikilvægt.

Það hefur jafnframt komið hér fram og er búið að fara mjög vel yfir að útsvarsálagningarstofninn hefur á undanförnum árum hækkað mun meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þess vegna er það mjög mikilvægt að það er komið sérstaklega til móts við landsbyggðarsveitarfélögin með því að leggja til jöfnunarsjóðsins á þessu ári 700 millj. og síðan er gert ráð fyrir að á næsta ári komi svo aftur 700 millj. sem verða lagðar inn til jöfnunarsjóðsins. Þessum fjárhæðum verður væntanlega skipt líkt og gert var á síðasta ári. Mörg sveitarfélög hafa orðið fyrir miklum skaða við tekjuöflun sína vegna þess að það hafa orðið miklir flutningar til höfuðborgarsvæðisins og sveitarfélögin þá misst tekjur vegna færri útsvarsgreiðenda og augljóst er að sveitarfélögn geta ekki dregið það hratt úr þjónustu að þau verða fyrir mjög miklum skaða af þessu. Þess vegna er nauðsynlegt að koma til móts við þau með svokölluðum fólksfækkunarframlögum. Ég hef ekki orðið vör við annað en sveitarfélögin séu mjög ánægð með að fá þarna aukið framlag í jöfnunarsjóðinn til þess að mæta þessu. Umræða um jöfnunarsjóðinn er náttúrlega sér á parti. Auðvitað er umfang jöfnunarsjóðs sífellt að aukast. En það er mikilvægt að halda því til haga að það eru mjög skýrar reglur um það hvernig jöfnunarsjóðurinn úthlutar sínu fé þannig að það er alveg ljóst hvernig t.d. þessum hluta sem kemur þarna til aukningar verður skipt og síðan eru aðrar reglur um bundin framlög og aðrar skiptingar jöfnunarsjóðsins mjög skýrar. Það er hins vegar ljóst að reglur jöfnunarsjóðsins þurfa sífellt að vera til endurskoðunar og nauðsynlegt að það sé gert. Það hefur komið upp sú umræða sem við þekkjum öll sem höfum starfað í sveitarstjórnum og verið á fundum með sveitarstjórnarmönnum að í sumum tilfellum eru reglur jöfnunarsjóðsins slíkar að þær hamla sameiningu sveitarfélaga. Það er náttúrlega ekki heppilegt að þannig hagi til ef menn að öðru leyti sjá hagræðingu í því að sameina sveitarfélög sem auðvitað er í mjög mörgum tilfellum. Því er ekki heppilegt að þær reglur sem jöfnunarsjóðurinn starfar eftir verði til þess að hamla sameiningu.

Jafnframt var í nefndinni rætt m.a. hvernig skattbreytingar sem hafa verið lagðar til á Alþingi hafa haft áhrif á sveitarfélögin, skattfrelsi lífeyrisiðgjalda og fleiri skattalagabreytingar sem hafa orðið. Það er ljóst að tekjur ríkisins hafa jafnframt lækkað vegna þess. En það er líka alveg ljóst að góðærið í landinu hefur aukist vegna efnahagslegra og skattalegra aðgerða og það leiðir þá líka til aukinna tekna einstaklinga sem hafa þá aftur á móti þau áhrif að tekjur sveitarfélaganna aukast vegna þess hversu tekjustofnar sveitarfélaga eru tengdir við tekjur einstaklinganna í útsvarsstofninum.

Útsvarsstofninn er býsna góður tekjustofn. Við fórum töluvert í þá vinnu að skoða hvernig tekjum sveitarfélaga í öðrum löndum væri háttað og við komumst að því að sennilega værum við með besta fjáröflunarkerfið til sveitarfélaga hér á landi af því sem við skoðuðum þannig að við gátum afskaplega lítið lært af öðrum í þessum efnum. Þess vegna eru í þessari skýrslu ekki lagðar til neinar róttækar breytingar á þessu tekjuöflunarkerfi. Þrátt fyrir allt höfum við því sennilega betra kerfi hér en þekkist víðast annars staðar. En það er auðvitað svo að mjög miklu máli skiptir, þar sem sveitarfélögin hafa sífellt meira vægi í rekstri hins opinbera og í opinberum fjármálum, að enn sé styrkt það samráð sem er á milli ríkis og sveitarfélaga og það undirstrikum við í niðurstöðum nefndarinnar. Það er mjög mikilvægt að þetta samráð sé fyrir hendi.

Jafnframt var lagt til að það kæmi til sérstakt kostnaðarmat á þeim lagafrumvörpum og stjórnvaldsákvörðunum sem fara í gegnum Alþingi og hvernig þau skulu metin fyrir fjárhag sveitarfélaganna. Þetta er eitt af því sem ég held að skipti afskaplega miklu máli, þ.e. að menn hafi fyrir framan sig hvaða áhrif lagafrumvörp hafa á fjárhag sveitarfélaga. Það hefur tíðkast nokkuð lengi á Alþingi að frumvörp væru kostnaðarmetin varðandi fjárhag ríkisins. En í þessum tillögum gerum við ráð fyrir því að þau verði einnig kostnaðarmetin gagnvart sveitarfélögunum þegar álitið er að það sé verið að setja á einhverja reglu sem gæti haft áhrif á rekstur sveitarfélaga.

Ég held að eitt af því merkara sem við gerðum hafi verið að laga það óréttlæti sem var og er varðandi álagningu fasteignagjalda. Ríkjandi fyrirkomulag, sem er þannig að álagning fasteignaskatta á allar eignir hvar sem þær eru á landinu er miðað við að þær séu staðsettar í Reykjavík, hefur auðvitað ekki traustan grundvöll, sérstaklega ekki ef litið er til þess að fasteignaverð á landsbyggðinni hefur lækkað mjög verulega þannig að þetta er mikið óréttlæti eins og þetta er núna gagnvart borgurunum, þ.e. að álagningarstofninn sé í engu samhengi við raunveruleikann. Þarna er tekið á þessu máli og auðvitað hefði þetta í för með sér að tekjur sveitarfélaganna mundu minnka. En til móts við það er komið með framlögum til jöfnunarsjóðsins sem eru um 1.100 millj. kr. og koma sem framlag ríkisins til jöfnunarsjóðsins. Þetta skiptir afskaplega miklu máli fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki á landsbyggðinni. Ég held að þarna sé mjög mikið réttlætismál komið í höfn og muni skipta mjög marga miklu máli.

Það er einnig ljóst að undanþágur frá fasteignagjöldum eru þó nokkuð víða í lögum. Til móts við það kemur að rætt var um það í niðurstöðu nefndarinnar að sérstök vinna yrði sett af stað til þess að fækka þessum undanþágum. Þarna er sérstaklega átt við ríkisfyrirtæki, kirkjur og fleiri stofnanir sem mönnum hefur þótt í gegnum tíðina að ættu að sleppa við að greiða fasteignagjöld. Í gegnum þetta þarf auðvitað að fara og skoða hvar hægt er að fækka þessum undanþágum.

Ég vildi svo nefna það að þó að nefndin hafi ekki haft það hlutverk þá nefnir hún augljós verkefni þar sem er um samrekstur ríkis og sveitarfélaga að ræða, þ.e. að það þurfi að breyta þeirri verkaskiptingu. Í niðurstöðu nefndarinnar er sérstaklega nefndur stofnkostnaður sjúkrastofnana og heilsugæslustöðva. Þarna er um verkefni að ræða sem sveitarstjórnarmenn hafa mjög oft talað um að væri ekki eðlilegt að lenti á sveitarfélögunum þar sem reksturinn er að öðru leyti hjá ríkinu. Þetta á einnig við um stofnkostnað framhaldsskóla og heimavistir þar með. Síðan nefndum við Innheimtustofnun sveitarfélaga sem er svona gamall draugur sem sveitarfélögin eða jöfnunarsjóðurinn situr uppi með og væri kannski eðlilegt, miðað við annað tryggingakerfi í landinu, að væri hjá ríkinu. Þetta eru allt atriði sem er eftir að skoða því að auðvitað voru þessar niðurstöður ekki endanlegur sannleikur alls. Það er stöðugt viðfangsefni okkar að fást við þennan málaflokk og það munum við auðvitað gera áfram. Það er t.d. ljóst að ekki vannst tími til þess hjá nefndinni að fara yfir þjónustugjöld sveitarfélaga. Þar er einfaldlega stór málaflokkur sem þarf að vinna í og nefndin leggur til að fram fari heildarúttekt á gjaldheimtu sveitarfélaga, þjónustugjöldum, og sú vinna fer væntanlega af stað upp úr þessu.

Ég vildi að síðustu, hæstv. forseti, óska eftir því að eiga góð samskipti við nefndarmenn í félmn. Það er afskaplega nauðsynlegt að þetta frv. klárist sem fyrst þannig að sveitarfélögin fái þessa tekjustofna aukna sem hér er verið að leggja til og augljóst er að sveitarfélögunum veitir ekkert af því eins og fram kemur reyndar í skýrslu nefndarinnar. Ég ítreka það að ég tel afskaplega mikilvægt að um þetta náist góð samstaða í félmn. og treysti félagsmálanefndarmönnum til þess að leggja á sig aukna vinnu nú í framhaldinu við að ljúka þessu máli.