Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:48:12 (1483)

2000-11-09 12:48:12# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:48]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er málfrelsi hér fyrir fleiri en talsmenn Samfylkingarinnar og við erum að ræða hér skattamál, það er augljóst, þetta tengist. Við erum að ræða það að sveitarfélögin fái auknar heimildir til útsvarsálagningar. Einnig verður það rætt seinna í dag að gera ráð fyrir því að tekjuskattsálagning til ríkisins muni lækka. Hún mun lækka til helmings á móti þessu, á móti þeim hækkunum sem gert er ráð fyrir til sveitarfélaganna. En það er auðvitað heilmikið mál að inn í skattumhverfið allt komi aukin framlög vegna barnabóta. Við erum að tala um annars vegar skattlagningu sveitarfélaganna og hins vegar ríkisins og inn í þann pakka, ef við erum að tala um skattahækkanir, þá eru barnabætur skattalækkanir.