Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:49:26 (1484)

2000-11-09 12:49:26# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:49]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Svo að við höfum grundvallaratriðin á hreinu, erum við ekki sammála um það, ég og hv. þm., að með hækkun barnabóta er að hluta til verið að skila til baka skerðingu þeirra á umliðnum fimm árum, aðeins að hluta til? Getum við ekki verið samála um það? Tala tölurnar ekki því máli?

Í annan stað. Erum við ekki líka sammála um það að fasteignaskattslækkunin sem landsbyggðinni var lofað er að engu gerð vegna útsvarshækkana á sömu svæðum? Er þetta ekki býsna einfalt mál? Ég endurtek því spurningu mína: Var því sérstaklega lofað af hálfu þingmannsins og Sjálfstfl. úti á landsbyggðinni í Austurl. að hækka ætti útsvar, að hækka ætti skatta á fólk? Ég held ekki. Mér þætti vænt um að fá hreinskilið svar við því, en því er nú tæpast að heilsa vænti ég því að eins og ég sagði áðan er verið að hella í þennan súpupott ýmsum óskyldum málum til þess að flækja þetta einfalda mál, þessa einföldu skattahækkun Sjálfstfl.