Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:51:56 (1486)

2000-11-09 12:51:56# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:51]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir segir að við þurfum að skoða þessi mál heildstætt. Þegar við ræðum um tekjustofna sveitarfélaga þurfum við líka að ræða um barnabætur sem reyndar er alls óskylt efni en hv. þm. segir að við þurfum að halda til haga hvað hafi verið gert til hagsbóta fyrir barnafólk gegnum barnabótakerfið. Ég ætla að aðstoða hv. þm. við að halda þessu til haga.

Það er vissulega rétt að 4,2 milljarðar, eins og gert er ráð fyrir á fjárlögum fyrir næsta ár til barnabóta, er hækkun frá árinu í ár. Í ár er það 3,6 og hækkun frá því í fyrra, 3,9, en það er ekki hækkun frá árinu 1997. Þá eru það 4,5 milljarðar. Það er ekki hækkun frá 1994, 4,4. Það er ekki hækkun frá 1992, 4,2 milljarðar. Það er ekki hækkun frá 1991, þá voru það 4,8 milljarðar á móti 4,2 milljörðum sem menn ætla að láta á næsta ári. Það eru 600 millj. kr. í mínus frá því sem barnabætur voru fyrir einum áratug. Ég tek undir það með hv. þm. Við skulum halda þessum stærðum til haga.