Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 12:58:57 (1492)

2000-11-09 12:58:57# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[12:58]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um annað atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Þegar stjórnarsinnar eru að hæla sér af þeirri breytingu sem á að verða á fasteignasköttum á landsbyggðinni þar sem verið er að efna það loforð sem gefið hefur verið að breyta þeim álagningarstofni sem verið hefur, sem hefur verið mjög ósanngjarn og hefur bitnað mjög á íbúum landsbyggðarinnar, þá mun sú skattalækkun ekki nýtast nema rétt á næsta ári vegna þess að heimildin er um það að ríkisvaldið veiti þá heimild til sveitarfélaganna, sem sveitarfélögin geta ekki annað en notað, að hækka útsvarið árið á eftir. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Hvernig getur hv. þm. sagt það hér að sú breyting á fasteignasköttum muni nýtast íbúum landsbyggðarinnar til lægri skatta? Telur hv. þm. sveitarfélög á landsbyggðinni ekki þurfa að nýta sér þá möguleika sem eru til hækkunar útsvars árið á eftir --- þannig að íbúar landsbyggðarinnar standa svipaðir eftir eða jafnvel verr settir?