Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:46:02 (1497)

2000-11-09 13:46:02# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), PBj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Pétur Bjarnason:

Herra forseti. Oft hefur verið bent á mismun á strandveiðum og vinnslu afla með innlendum vistvænum orkugjöfum annars vegar og úthafsveiðum og vinnslu fiskaflans með olíukyntum úthafsveiðiskipum hins vegar.

Í umhverfislýsingu sjútvrn. segir m.a, með leyfi forseta:

,,Draga skal úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda eins og unnt er að teknu tilliti til þess hvað þjóðin er háð sjávarútvegi.``

Sú stefna sem rekin hefur verið um árabil að hlaða undir stórútgerðir með sívaxandi vélastærðir sem þurfa mikla innflutta og mengandi orku er ekki til þess fallin að ná þessu marki. Fyrir utan þau áhrif sem nú eru að koma fram í vaxandi þunga vegna síhækkandi olíuverðs.

Ekki eru líkur á því að olíuverð fari lækkandi á næstunni og fátt bendir til þess að Íslendingum takist að standa að fullu við markmið gagnvart Kyoto-bókuninni nema gripið verði til róttækra ráðstafana. Þar sem nú fer fram á vegum stýrihóps ráðuneytisstjóra greining á aðgerðum stjórnvalda til að mæta kröfum sem við höfum skuldbundið okkur til að uppfylla er bent á vænlega leið til þess að ná árangri, þ.e. að grípa til almennra róttækra aðgerða til að efla strandveiðar og landvinnslu á ný. Það væri fróðlegt að fá samanburð á mengun annars vegar og kostnaði hins vegar milli land- og sjóvinnslu þar sem tekið væri tillit til aukins vélarafls úthafsveiðiskipanna og hækkunar olíuverðsins.

Með þessum róttæku aðgerðum mætti fá tækifæri til þess að nýta innlenda orkugjafa, draga úr mengun og nýta fjárfestingu í mannvirkjun sem eru vannýtt víðs vegar um landið. Hæstv. sjútvrh. yrði þar að auki léttara að uppfylla umhverfislýsingu ráðuneytis síns.