Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:54:44 (1501)

2000-11-09 13:54:44# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um að skollinn væri leiðinlegt veggskraut og ég get svo sannarlega tekið undir það. Hins vegar gleymum við því oft að við Íslendingar höfum náð mjög langt í nýtingu hreinna orkugjafa, mun lengra en flestar eða allar aðrar þjóðir. Við sjáum það mjög vel þegar við ferðumst með útlendinga um landið, að þeim kemur mjög á óvart á hvern hátt við framleiðum rafmagnið okkar, á hvern hátt við hitum upp húsnæði okkar, með hreinum orkugjöfum.

Ég minni á að hið fyrsta mál hinnar nýstofnuðu Samfylkingar á síðasta kjörtímabili var einmitt það að þeir vildu að skrifað yrði þegar í stað undir Kyoto-samkomulagið. Hins vegar þegar við fórum að inna það ágæta fólk eftir því hvort það væri tilbúið að afsala sér því að byggð yrði t.d. magnesíumverksmiðja á Suðurnesjum, þá varð býsna fátt um svör hjá hv. þm. Samfylkingarinnar.

Það hefur líka komið fram að til stendur að nýta orkugjafa á Íslandi eins og vetni. Við getum náð mjög langt í þeim efnum og það verða gerðar mjög merkilegar tilraunir í þeim efnum.

Þá minni ég líka á að t.d. í Vestmannaeyjum og Selfossi stendur til að virkja vindorku til raforkuframleiðslu. Það eru líka hreinir orkugjafar. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um að skollinn væri leiðinlegt veggskraut og við eigum að draga upp jákvæðari myndir af landi og þjóð en við gerum í þessari umræðu.