Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 13:58:49 (1503)

2000-11-09 13:58:49# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er eðlilegt af þingmönnum að æskja þess að Ísland standi framarlega í athöfnum ríkja til að vinna gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda eins og hér er rætt og koma í veg fyrir óæskilegar loftslagsbreytingar með slíkum aðgerðum. Það verður hins vegar að geta þess að fyrir fáeinum árum kom fram í skýrslu til Alþingis að útblástur þessara lofttegunda á Íslandi var miðað við hvern íbúa um það bil 30% minni en í öðrum löndum OECD. Það er allnokkur munur. Þó að dregið hafi saman síðan þá er ég alls ekki viss um að hv. stjórnarandstæðingar sem tekið hafa þátt í umræðunni hér í dag séu sammála um að við séum að nálgast þá þó aðeins sé vísað til orða þeirra sjálfra. Ég hygg að það muni koma fram betur í umræðunni eða skömmu áður en henni lýkur að Ísland er enn meðal fremstu ríkja í þessu efni. En það skiptir þó máli að viðmiðanir sem gerðar voru í Kyoto-bókuninni voru Íslandi fremur óhagstæðar. Við stóðum á þeim tíma mjög framarlega vegna þess að við vorum á undan öllum öðrum þjóðum þar á meðal grannþjóðum okkar að nýta vistvænar orkulindir í þeim mæli sem við höfum gert. Við höfum haldið því áfram en það styttist nokkuð í að við komumst jafnhratt áleiðis í því efni, m.a. vegna þess hve mikið af þeim útblæstri kemur frá fiskiflota okkar og samgöngutækjum. 2/3 hlutar slíkra efna sem við blásum út koma frá samgöngum og fiskveiðum. Það segir sig sjálft að til þess að ná verulegum árangri þar þarf að koma í gagnið gjörbreyttri og nýrri tækni við að geyma og flytja orku í þeim miðlum sem vistvænir orkugjafar krefjast. Sú tækni er ekki komin fram.

Það er hins vegar ljóst að við þurfum einnig að geta nýtt þær orkulindir sem við eigum nú ónýttar í öðrum iðnaði og þar kemur að því að aðrar þjóðir taki undir málstað okkar eins og hér hefur komið fram að þær gera. Þær meta þá stöðu, þann árangur sem við náðum áður. Margar þeirra vilja gjarnan feta sama veg og við.