Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:03:15 (1505)

2000-11-09 14:03:15# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt að þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin og ræðu hans áðan sem þó var að mínu mati afar bragðdauf. Ég hef oft heyrt mergjaðri orð úr hans munni. Ég vil sömuleiðis, herra forseti, lýsa vonbrigðum með að hæstv. umhvrh. skuli halda hér sömu ræðu og hún hélt fyrir viku síðan. Ég, herra forseti, hafna þessum rökum um hreinu orkuna sem notuð er til þess að knýja mengandi álbræðslu. Ég hafna þeim vegna þess að með þeim eru íslensk stjórnvöld að segja að það sé í lagi að búa til álbræðslur, málmbræðslur og mengandi stóriðju út um allan heim svo fremi sem þær séu knúnar með vatnsorku. Geta íslensk stjórnvöld skrifað undir það?

Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera í sambandi við forustuna í vetnissamfélaginu þegar hinar takmörkuðu orkulindir okkar eru allar farnar í mengandi stóriðju? Ég verð að benda á, herra forseti, að við eigum ekki ótakmarkaða auðlind í vatnsafli okkar. Hún er afar takmörkuð og ef fram heldur sem horfir þá verður ekkert eftir í vetnisframleiðslu þegar öll álverin verða komin hér upp. Það er tómt mál að tala um þegar hv. þm. tala um vetnisframleiðslu og stæra sig af því sem aldrei verður möguleiki á að koma á fót.

Herra forseti. Við erum skuldbundin rammasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1994. Við höfum undirritað hann og hvar eru markmið hans ef ríkisstjórnin ætlar að halda fram sem horfir?

Enn talar hæstv. forsrh. um að vísindamenn deili um áhrif hlýnunar lofthjúpsins. Þess ber að geta, herra forseti, að sú milliríkjanefnd sem hér er talað um er ekki bara eitthvert ótilgreint samstarf vísindamanna. Þetta eru þúsundir vísindamanna sem starfa hjá skilgreindri stofnun og meira að segja íslenska vísindanefndin sem fjallað hefur um málið segir að þarna séu flestir færustu vísindamenn samtímans á viðkomandi fagsviðum. Úr þessu gera íslensk stjórnvöld lítið og það er forkastanlegt, herra forseti.