Loftslagsbreytingar

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:05:33 (1506)

2000-11-09 14:05:33# 126. lþ. 22.94 fundur 99#B loftslagsbreytingar# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. málshefjandi fann að því að hæstv. umhvrh. hefði flutt sömu ræðuna og fyrir viku. Ég verð að viðurkenna að það var ekki allt alveg nýtt í ræðu hv. málshefjanda áðan. Ég held að ég hafi a.m.k. heyrt sumt áður.

Ég tók eftir því að aðaltalsmaður Samfylkingarinnar sagði að sér fyndist hún vera eins á öðrum hnöttum þegar hún væri að hlusta á umræður á Alþingi Íslendinga. Það er sjálfsagt erfitt fyrir ákafan alþjóðasinna að hlusta á venjulega Íslendinga tala og koma fram með sjónarmið sín.

En mér þótti það þó sæta meiri tíðindum en þetta að hv. þm. sagði að Samfylkingin --- og er rétt að Íslendingar taki nú vel eftir því --- að Samfylkingin ætlaðist til þess að ríkisstjórnin gætti ekki sérstakra hagsmuna Íslendinga í þessu máli, Samfylkingin hefði ákveðið og ætlaðist til þess að ríkisstjórnin gætti ekki sérstakra hagsmuna Íslendinga í þessum málum. Það skal ég segja hv. þm. að ef við kæmum með þetta sjónarmið til Haag eða til annarra þeirra staða þar sem þessi mál eru rædd, þar sem allar þjóðir gæta hagsmuna sinna en við segðum að ákveðið hefði verið á Íslandi að við kæmum sérstaklega til að gæta ekki eigin hagsmuna, þá yrði haldið að við værum komnir frá öðrum hnöttum. Þá mundu menn halda að þeir hefðu loksins séð fólk frá öðrum hnöttum sem kæmi á alþjóðlega ráðstefnu, rétti upp höndina og segði: Við erum komin hingað til að gæta ekki hagsmuna Íslendinga (Gripið fram í: Þetta er útúrsnúningur.) á þessari ráðstefnu.

Þetta eru staðreyndir máls og ekki útúrsnúningar, því miður fyrir hv. þm. sem er í Samfylkingunni. Þetta var yfirlýsingin sem hér var gefin áðan, skýrt og örugglega. (Gripið fram í.) Lestu bara ræðu þingmannsins fyrst þú gast ekki hlustað á hana hér í salnum. Þar kom fram að íslenska ríkisstjórnin ætti að gæta þess að gæta ekki sérstaklega hagsmuna íslensku þjóðarinnar þarna. Þetta eru orð Samfylkingarinnar. Þetta eru skilaboð Samfylkingarinnar. Eftir þeim orðum verður munað og eftir þessum orðum munu Íslendingar taka. Það er einmitt vegna þess að Samfylkingin talar jafnan eins og hún gerir í þessu máli sem hún hefur engan hljómgrunn meðal Íslendinga.