Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:08:06 (1507)

2000-11-09 14:08:06# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Fremur hefði ég viljað halda áfram með þá umræðu sem hér hefur staðið í hálftíma, eftir síðari ræðu hæstv. forsrh. En ég hef, herra forseti, því miður ekki tækifæri til þess hér og nú. En þeirri umræðu verður fram haldið síðar og þess minnst hvernig forustumaður ríkisstjórnarinnar heldur á stærstu málum bæði okkar og annarra og faglegrar umræðu hans.

Herra forseti. Hér er afskaplega mikið góðæri og ríkisstjórnin þreytist ekki á að minna okkur á það. Við vitum hins vegar að það ratar misvel í hina ýmsu vasa heimilanna í landinu. Ríkisstjórnin er glöð vegna þess að hún skilar 30 milljarða afgangi og telur sig reka gott bú. Ríkisstjórnin er einangruð við fjárlög sín. Hún skynjar ekki stöðuna hjá sveitarfélögunum í landinu og hér ræðum við um það hvernig þessi ríkisstjórn telur að sinna eigi þörfum þegnanna, annars vegar af hálfu ríkisins og hins vegar af hálfu sveitarfélaganna.

Ég vil minna á að ríkisstjórnin skellti skollaeyrum við þenslueinkennunum áður en darraðardans efnahagslífsins hófst af alvöru með tilheyrandi viðskiptahalla, með sjö vaxtahækkunum Seðlabankans á 20 mánuðum. Ég bið hv. þm. að taka sérstaklega vel eftir því, sjö vaxtahækkunum Seðlabankans á 20 mánuðum með verðbólgu og tilheyrandi afleiðingum fyrir heimilin í landinu. Með þessu og öðrum aðgerðum hefur ríkisstjórnin sjálf náð umtalsverðum tekjuafgangi ríkissjóðs þrátt fyrir að hið sama hafi ekki gerst hjá sveitarfélögunum. Þenslan og viðskiptahallinn skapar viðbótartekjur til ríkissjóðs eins og frægt er á meðan sveitarfélögin berjast í bökkum.

Í þessu góðæri virðist mér að ríkisstjórnin hafi setið með hendur í skauti. Hún virðist ekki hafa neina framtíðarsýn og er ekki að sjá að farið sé í uppbyggingu, t.d. í mennta-, rannsóknar- og þróunarmálum til að undirbyggja nýja sókn og ganga til nýrra átaka. Nei, miklu fremur er ríkisstjórnin upptekin við risavirkjanir og stóriðju. Það er það eina sem hugurinn fangar hjá þessari ríkisstjórn, engin skapandi hugsun, engin ný sókn í þekkingarsamfélaginu.

Herra forseti. Ég var að lesa litla grein í Børsen sem er danskt blað. Fyrirsögn þeirrar greinar er að Danmörk sé betri í samkeppninni. Betri en hver? mundi einhver spyrja. Svarið er: Betri en nærri því flestir. Í samanburðarmælingu er Danmörk komin upp í sjötta sæti. Mælingin birtist hjá svokölluðu World Economic Forum í Sviss sem árlega gefur út sérstaka skýrslu og mælir samkeppnishæfustu hagkerfin. Í ár toppar Finnland þennan lista og fer upp fyrir Bandaríkin. Ég bið menn að taka eftir þessu. Finnland, sem barðist við efnahagskreppu og atvinnuleysi um svipað leyti og við og átti í miklum erfiðleikum fyrir fáum árum, hefur rifið sig upp í efsta sæti á þessum alþjóðlega mælikvarða.

Sú könnun sem ég vísa til og fjallað er um í Børsen raðar löndum í samræmi við alþjóðlega samkeppnishæfni. Í skýrslunni er fjallað um styrk landanna og veikleika. Vissulega væri áhugavert fyrir okkur að skoða þessa skýrslu og sjá hvaða veikleikar eru í okkar hagkerfi vegna þess að það er óumdeilt að hér býr kraftmikil þjóð sem á mikla möguleika en er undir landsstjórn sem tekur ekki á þeim málum. Sá stuðull sem ég vísa til miðar við nýja hagkerfið og tekst á við samanburð með nýjum hætti. Þar vega nýjungar og tækniþróun þyngra en áður og í fyrri mælingum. Þetta er mjög athyglisvert fyrir okkur sem viljum horfa fram á veginn. Eins og ég sagði áður er Danmörk í 6. sæti á þessari skrá um samkeppnishæfni landa annað árið í röð. Finnland er í fyrsta sæti og fyrir ofan okkur eru flest ríki vesturveldanna. En við höfum þokast upp í 17. sæti úr 24. Vel er það en þetta er ekki til að hrópa húrra fyrir hjá svo vel menntaðri þjóð vegna þess að notkun internets ásamt rannsóknum og ekki síst þróun skilur hafrana frá sauðunum í þessum samanburði. Þar erum við í 17. sæti en ef við ætlum að sækja fram þá verðum við að taka á og undirbyggja það en ekki sitja með hendur í skauti eins og núverandi ríkisstjórn gerir.

Við erum í þessu umhverfi að fjalla um erfiðleika sveitarfélaganna og ósk þeirra um að tekin verði til endurskoðunar tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga vegna þeirra verkefna sem verða æ stærri og þýðingarmeiri hjá sveitarfélögunum og færri verkefna ríkisins. Það hvernig ríkið fer hins vegar í þessa uppstokkun sýnir algera uppgjöf þess við að endurskoða forræði mála, ábyrgð á eigin verkefnum, tekjur og þau verkefni sem ríkið sjálft hefur fært yfir til sveitarfélaganna. Það er sams konar uppgjöf og ég vísaði til þegar ég greip niður í þessa áhugaverðu grein, um samanburð á samkeppnshæfni vestrænna þjóða í dag, m.a. með tilliti til tækniþróunar, notkunar internets og nýrra möguleika sem sú þróun gefur.

[14:15]

Í tekjustofnanefndinni, sem við erum að fjalla um niðurstöðurnar frá, átti Samfylkingin öflugan fulltrúa, hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson. Hann hefur afburðaþekkingu á málefnum sveitarfélaganna og lagði áherslu á það í nefndinni að tekið yrði á þeim vanda sem skapast hefur. En því miður mátti hann sín lítils í hópi stjórnarliða sem á endanum ákváðu að fara þessa veiku leið, að kroppa í málið sem áfram er í raun óleyst. Tillaga ríkisstjórnarinnar er að hækka megi útsvarið um tæplega 1% á tveimur árum en hún ætlar að halda sínu að mestu. Það er niðurstaða ríkisstjórnarinnar sem kemur frá þessari nefnd.

Auðvitað er þetta ekki, eins og fram hefur komið í umræðunni, niðurstaða nefndarinnar sem slíkrar, heldur ákvörðun ríkisstjórnarinnar um hvað nefndin megi setja fram í lokin. Niðurstaðan er í engu samhengi við verkefnið sem nefndinni var falið að leysa.

Í helstu niðurstöðum nefndarinnar sem fylgja tillögunum kemur fram að frá 1990--1999 hafa bókfærðar skatttekjur sveitarsjóðanna aukist að raungildi um 69% meðan rekstrargjöld, þar með talin fjármagnsgjöld, hafa aukist um 97,4%. Þetta er enginn smávegis munur fyrir sveitarfélög sem sinna þurfa jafnþýðingarmiklum verkefnum. Það kemur líka fram að hlutfall rekstrargjalda af skatttekjum hefur aukist úr 78,4% 1990 í 91,5%. Við í þessum sal verðum að hafa í huga þá uppbyggingu sem sveitarfélögin eiga að standa fyrir.

Heildarskuldir sveitarsjóðanna voru í árslok 1999 51,8 milljarðar og hafa rúmlega tvöfaldast síðan 1990. Þetta eru afar háar upphæðir fyrir sveitarfélögin. Eins og komið hefur fram við þessa umræðu hefur forsrh. sent þeim tóninn og sagt að þetta sé óráðsía og skuldasöfnun sem sveitarfélögin hefðu ekki átt að leyfa sér. En allir sem hafa þekkingu á sveitarstjórnarmálum vita betur, þeir vita að til sveitarfélaga hafa verið flutt verkefni og gerðar til þeirra kröfur um uppbyggingu heima fyrir sem þau verða að sinna.

Hér er ákveðið að leyfa sveitarfélögunum að hækka útsvarið. Á landsbyggðinni mun fasteignaskattur lækka á íbúana á móti og það vegur salt nokkurn veginn. En það gerist t.d. ekki hér á suðvesturhorninu. Í þéttbýlinu verður útsvarshækkunin því viðbótarskattur fyrir alla skattgreiðendur. Við skulum líka hafa í huga, af því hér hefur verið talað um jöfnunarhlutverkið og jöfnunarsjóðinn, að sjóðurinn verður ekki bara til hjá ríkinu heldur greiða sveitarfélögin í æ ríkari mæli í þann sjóð. Þannig eru sveitarfélögin sjálf, sem flest hafa nóg með sitt, að jafna sín í milli með þeim greiðslum sem þau leggja inn í jöfnunarsjóðinn.

Það er áhugavert að í því umhverfi sem ég er að vísa til, í efnahagsumhverfinu þar sem við erum mæld á kvarða samkeppnishæfni meðal þjóðanna, í margumræddu góðæri sem ríkisstjórnin er svo ánægð með og notar svo hræðilega lítið til að horfa fram um veg, hefur ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., undir forustu Davíðs Oddssonar, sparað með sérstökum hætti og ekki bara í nokkur ár. Allan þann tíma sem þessi ríkisstjórn hefur setið hefur hún verið að spara. Þær sparnaðaraðgerðir nýtast ekki sveitarfélögunum. Það er miklu fremur að vegna sparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar lendi sveitarfélögin í því að leysa vanda fjölskyldna sem verður til við þennan sparnað.

Þannig hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar árlega sparað milli 3--4 milljarða í tryggingagreiðslur til aldraðra og öryrkja, 3--4 milljarða á hverju einasta ári. Þessar tölur hafa verið settar fram, m.a. af Samtökum aldraðra og þær sjáum við einnig í samanburðartölum Hagstofunnar.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur sparað í barnabótum svo nemur milljörðum, um 1,5 milljarða á ári. Hún hefur reyndar lofað verkalýðshreyfingunni, í tengslum við samninga, að skila 1,5 milljörðum til baka árlega og ætlar að fikra sig í átt til þess að auka barnabæturnar, sem hún er búin að spara svona vel undanfarin ár, um 600 millj. --- ekki 1,5 milljarða í góðærinu mikla, heldur um 600 millj.

Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar afnam lögin um félagslegt húsnæði, þær breytingar tóku gildi með litlum sem engum fyrirvara. Markaðurinn var ekki tilbúinn að byggja þær íbúðir sem Reykjavíkurborg og sveitarfélögin í kring höfðu árlega byggt, eftirspurnin sprengdi upp markaðinn ásamt því að fólk flutti unnvörpum suður. Verð og leiga hækkaði upp úr öllu valdi, fasteignamat hækkaði í framhaldi af því og barnabætur og vaxtabætur heimilanna í landinu voru skertar gífurlega þó að fjárhagsrammi fjölskyldnanna væri óbreyttur.

Þannig töpuðu fjölskyldurnar, bara á þeim þremur þáttum sem ég hef hér nefnt, milljörðum króna en ríkið sparaði. Þarna hefur ríkissjóður náð sér í hluta af ríkisafganginum á meðan viðskiptahallinn hefur nært hinn hluta afgangsins.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um niðurstöðu tekjustofnanefndar eða réttara sagt frv. ríkisstjórnarinnar og ákvörðun ríkisstjórnarinnar út frá þeirri vinnu. Á sama tíma og nefndin skilaði niðurstöðu sinni vorum við þingmenn Reykjaness á ferð um Reykjanes. Við ræddum þar við sveitarstjórnirnar og það vill svo til að í flestum tilfellum stjórna flokkssystkin framsóknar- og sjálfstæðisfólks við ríkisstjórnarborðið sveitarfélögum á Reykjanesi. Alls staðar var sami tónninn. Það var sama hvort við sátum á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum eða á fundum með hverri sveitarstjórn í okkar kjördæmi fyrir sig, það var alls staðar sami tónninn. Þar var rætt um þau nýju verkefni sem sveitarfélögin hafa fengið, ný verkefni sem mikilvægt er að gera skýr skil í framtíðinni, t.d. að öldrunarþjónusta og málefni fatlaðra fari alveg til sveitarfélaganna, önnur verkefni alveg til ríkisins og að tekjur fylgi með.

Sömuleiðis kveinkaði hvert einasta sveitarfélag sér undan löggæslunni og samskiptum við ríkið. Þau hafna samskiptum við ríkið um þátt eins og löggæsluna um leið og dómsmrh. kemur fram í fjölmiðlum, ber sér á brjóst og segir: Það er allt í lagi hjá okkur varðandi löggæslu og lögregluna. Það var afar merkileg lífsreynsla, herra forseti, að funda með sveitarstjórnum í svo stóru kjördæmi sem Reykjanes er, jafnöflug sveitarfélög og þar eru, og hlusta á það sem menn höfðu að segja um verkefnin sem þau skiptast á við ríkisstjórnina, þau verkefni sem þau deila með henni og þau sem sveitarfélögin hafa fengið til sín.

Það var sama hvar borið var niður. Í Grindavík var komið inn á skattamálin og menn tjáðu sig um að mikil vonbrigði væru með þessa niðurstöðu tekjustofnanefndar, að þurft hefði víðtækari uppstokkun og þar greindi menn ekki á, hvar í flokki sem þeir stóðu.

Í Hafnarfirði tóku menn stórt upp í sig á þessum fundum. Það hafa verið lesnar hér upphátt af öðrum í Samfylkingunni bókanir Hafnarfjarðarbæjar varðandi niðurstöðu tekjustofnanefndar. Þeir hafa bent á að helmingurinn af hagvexti og tekjum sveitarfélaganna hafi farið bara í grunnskólann og að oftar þurfi að endurskoða tekjuskiptinguna, það sé til lítils gagns að kroppa bara í eins og hér á að gera.

Í Garðabæ var bent á að hallarekstur og fjármagnskostnaður sveitarfélaganna nemi um 6 milljörðum króna og það hafi lengi vantað um 6--7 milljarða til sveitarfélaganna. Einnig kom fram að hallarekstur síðasta áratugar væri fullkomlega skilinn eftir í þessari niðurstöðu ríkisstjórnarinnar frá tekjustofnanefnd. Þar sem ríkið lækkar tekjurnar ekki á móti þegar sveitarfélögunum verður heimilað að hækka útsvar þá er hætt við að tekjuheimildin nýtist sveitarfélögunum alls ekki. Við eigum eftir að sjá hvernig sveitarfélögin taka á málum þegar boltanum verður hent til þeirra.

Í Kópavogi var sagt að þetta væri ósanngjarnt, að sveitarstjórnarmennirnir eigi að vera vondu karlarnir. Ríkisstjórnin hefur sitt á þurru, hún situr að gróðanum af aðgerðum liðinna ára hjá sér, að gróðanum af því að hafa lækkað greiðslur til aldraðra og öryrkja, gróðanum af skertum barnabótum og hún er með gróðann af því að hafa dregið úr félagslegum aðgerðum. Hún er einnig með gróðann af viðskiptahallanum en sveitarstjórnirnar hafa ekki lengur beinar eða sérstakar tekjur af atvinnurekstrinum eins og var áður fyrr. Þeim er úthlutað útsvarsprósentu og þegar hún er hækkuð er sagt að þau megi hækka en ríkisstjórnin ætli að halda áfram sínu striki. Sveitarstjórnirnar eiga að vera vondu karlarnir.

Það er auðvitað mikið umhugsunarefni, herra forseti, hvernig haldið er á málum gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Það er óumdeilt að ef við ætlum að koma á framþróun í landinu þá verður hún ekki öðruvísi eftir þessa reynslu en að sveitarfélögin taki við nærverkefnum fjölskyldunnar.

Við sjáum að á meðan ríkið var með grunnskólann þá var því frestað ár eftir ár að fækka börnum í bekk af því það kostaði. Ár eftir ár var því frestað að lengja skólatímann og fjölga kennslustundum af því það kostaði. Svo var reynt að leggja mat á hvað þetta mundi kosta þegar skólinn yrði fluttur til sveitarfélaganna af því menn vissu að sveitarfélögin gætu ekki frestað þessu, þau yrðu að taka á málum út frá hagsmunum barnanna í bænum.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara yfir niðurstöður sveitarfélaganna af því að hafa tekið við grunnskólanum frá ríkinu. En sveitarfélögin hafa lært. Þess vegna eru málefni fatlaðra í biðstöðu. Það verður engin leið að fá sveitarfélögin til að taka við þeim málaflokki, jafnsveltum og hann hefur verið undanfarin ár, án þess en það dæmi verði reiknað til fulls.

Við vitum það að ef við ætlum að reka öfluga nærþjónustu þá verður að taka á þessum málum. Það verður að taka á þeim þannig að ríkið taki til sín ákveðna erfiða kosti og sveitarfélögin fái svigrúm til að reka þjónustu við heimilin og íbúana. Um þetta hafa málin snúist hjá öllum sveitarstjórnum í kjördæminu sem við höfum heimsótt á liðnum vikum, burt séð frá því hvaða flokkar réðu þar ríkjum.

Herra forseti. Ég spái því að það líði ekki langur tími þangað við stöndum hér aftur og ræðum þessi mál vegna þess að þessari niðurstöðu munu sveitarfélögin ekki una til lengdar.