Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:28:24 (1508)

2000-11-09 14:28:24# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég verð að segja í upphafi máls míns að það kemur á óvart hve fáir þingmenn úr stjórnarliðinu eru viðstaddir þessa mikilvægu umræðu. Hér hafa verið sjö þingmenn Samfylkingarinnar fylgst með umræðunni, einn frá vinstri grænum, einn ráðherra frá Framsfl. og svo þingforseti frá Sjálfstfl. Mér finnst þetta dálítið sérkennilegt.

Herra forseti. Ég tel að hér séum við að ræða stórmál og ætla að vera með smáinnlegg í þessa umræðu. Reyndar hafa hv. þm. Samfylkingarinnar, sem talað hafa á undan mér, gert mjög skýra grein fyrir afstöðu okkar í þessu máli, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, Guðrún Ögmundsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir. Auk þess hefur Samfylkingin lagt fram brtt. þar sem lagðar eru til breytingar sem við teljum þurfa að gera til þess að við getum sætt okkur við þetta mál.

[14:30]

Ríkisstjórnin er sem sagt að leggja til að aukin fjárþörf sveitarfélaganna verði að miklu leyti sótt til almennings, þ.e. með almennri skattahækkun. Auknar heimildir eru hjá sveitarfélögunum til að hækka útsvar um u.þ.b. 3.750 millj. en ríkissjóður lækkar tekjuskattinn aðeins um 1.250 millj. Ljóst er að ef sveitarfélögin nýta þessar heimildir munu skattar hækka á fólkið í landinu og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að úti á landi lækkar fasteignaskatturinn á móti.

Þessu mótmælti fulltrúi Samfylkingarinnar í tekjustofnanefndinni með sérstakri bókun og ég vil, með leyfi forseta, vitna aðeins í þá bókun hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, fulltrúa okkar í nefndinni:

,,Megintillaga formannsins snýr þó að breytingum á útsvari. Þar er gert ráð fyrir auknum heimildum sveitarfélaga á næstu tveimur árum sem gætu aukið tekjur þeirra um 3.750 milljónir króna ef auknar heimildir yrðu nýttar til fullnustu. Ríkissjóður mun að sama skapi aðeins lækka tekjuskatt um næstu áramót um 1.250 milljónir króna.

Veikleiki þessara tillagna er ljós. Þær eru ávísun á skattahækkanir, fyrst og fremst á suðvesturhorni landsins. Nefndin viðurkennir umtalsverða viðbótarfjárþörf sveitarfélaga, en meiri hluti hennar leggur þá ábyrgð á hendur sveitarfélögum að hækka skatta á gjaldendur í stað þess að ríkissjóður, sem er aflögufær, mundi lækka sína skatta á móti. Ef heimildir eru nýttar hjá sveitarfélögum hér á suðvesturhorni landsins, sem sum hafa safnað miklum skuldum, þá gæti það þýtt skattahækkanir á íbúa á þessu svæði í kringum 1,6 milljarða króna. Það jafngildir nærri 50 þúsunda króna hækkun á hverja fimm manna fjölskyldu á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali miðað við höfðatölu. Það er óásættanlegt. Eins má gera ráð fyrir að lækkun fasteignaskatts á íbúa landsbyggðarinnar jafnist út í útsvarshækkun á landsbyggðinni --- þannig að íbúar landsbyggðarinnar verði jafnsettir á eftir.``

Það er niðurstaða okkar í Samfylkingunni að nauðsynlegt sé að ríkissjóður lækki álögur á tekjuskatti samsvarandi auknum heimildum til hækkunar útsvars. Og það var tillaga fulltrúa okkar í nefndinni. En hún hlaut ekki samþykki meiri hluta nefndarmanna þó svo að fulltrúar sveitarfélaga í nefndinni hafi tekið undir efnisatriði tillögunnar í sérstakri bókun sem þeir lögðu þar fram.

Eins og ítrekað hefur komið fram í umræðunni hafa útgjöld sveitarfélaganna aukist mjög mikið og í skýrslu um fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á árunum 1990--1997 kemur fram að fjárhagur sveitarfélaga hafi skerst um 14--15 milljarða á þessum sjö árum vegna beinna aðgerða eða afskipta ríkisins.

Menn hafa talað hér um, m.a. formaður fjárln., að það þurfi að gera sér grein fyrir því þegar lagasetning er gerð hversu mikið það muni koma niður á sveitarfélögunum. Þetta er vissulega rétt og ég ætla að vitna í nokkur atriði sem koma fram í skýrslu vinnuhóps sem lauk störfum í ágúst og fjallaði um fjárhagsleg áhrif ýmissa skattkerfisbreytinga á fjárhag sveitarfélaga. Þar eru tiltekin nokkur atriði, bara til að menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif þessar breytingar hafa haft fyrir sveitarfélögin.

Hlutabréfaafsláttur samkvæmt lögum hefur þýtt lækkun á útsvarsstofni. Lækkunin hefur verið áætluð 782 millj. fyrir öll sveitarfélög í landinu sl. þrjú ár.

Skattfrelsi lífeyrisiðgjalda hefur verið við lýði frá árinu 1995, en þá var ákveðið að undanþiggja greiðslur launþega í lífeyrissjóð að hámarki 4% af launum frá álagningu tekjuskatts og útsvars. Talið er að það hafi kostað rúma 3 milljarða.

Sveitarfélög þurfa að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtum, arði og söluhagnaði hlutabréfa. Erfitt er að meta niðurstöður þessara liða til fullnustu, en í niðurstöðum þessa vinnuhóps er áætlað að þetta hafi kostað sveitarfélögin um 93 millj. kr.

Yfirfærsla grunnskólans og ákvörðun um einsetningu grunnskólans hefur þýtt útgjaldaauka fyrir sveitarfélögin og sömuleiðis má benda á aðalnámskrá fyrir grunnskólann, leikskóla og tónlistarskóla. Slík breyting hefur óhjákvæmilega mikil útgjöld í för með sér, m.a. framkvæmd nýrra námskráa, en stjórnvöld hafa ekki viljað viðurkenna að þessar breytingar hafi haft útgjöld í för með sér.

Menn hafa verið að tala um lagabreytingar en það eru ekki síður reglugerðarbreytingar sem hafa haft þessar afleiðingar, þ.e. aukin útgjöld, í för með sér því ljóst er t.d. að bara með yfirfærslu grunnskólans hafa brunavarnir og ýmislegt fleira varðandi einsetninguna haft töluverð útgjöld í för með sér án þess að menn hafi viljað viðurkenna það.

Einnig má nefna aðalnámskrána. Hún kostar heilmikið. Ekki er hægt að koma henni á án þess að kennarar leggi fram ákveðna vinnu og auðvitað þarf að greiða þeim laun fyrir það. En menntmrn. hefur ekki viljað viðurkenna að það muni kosta sveitarfélögin að koma henni á. Það eru því ýmis atriði sem vissulega er full ástæða til að tiltaka í þessari umræðu. Til dæmis hefur kostnaður vegna félagslegrar þjónustu sem sveitarfélögin þurfa að framkvæma aukist vegna lagabreytinga, m.a. vegna sparnaðar í heilbrigðiskerfinu og ýmissa lagabreytinga vegna félagsþjónustu.

Einnig hefur komið í ljós að útgjöld vegna málefna fatlaðra hafa farið vaxandi sem kemur niður á sveitarfélögunum.

Lög um umhverfismat hafa haft með sér mikla útgjaldaaukningu. Þar má t.d. nefna sorpförgun og ýmislegt annað sem snýr að umhverfismálum, auk þess sem ýmsar framkvæmdir sveitarfélaganna eru umhverfismatsskyldar, sem eru mikil útgjöld fyrir sveitarfélögin.

Það eru ýmsar aðrar lagabreytingar sem full ástæða er til að nefna hér. Það er t.d. lagabreyting um minni kostnaðarhlutdeild ríkisvaldsins við meindýraeyðingu. Það má nefna breytta kostnaðarskiptingu við sjóvarnir. Nú þurfa sveitarfélögin að greiða 1/8 hluta af þeim kostnaði. Og sömuleiðis þegar lögum var breytt um snjóflóðavarnir og snjóflóðaeftirlit þar sem sveitarfélögunum er gert að greiða 10% af snjóflóðavörnum. Sömuleiðis breytingar sem hafa verið gerðar og varða greiðslu fasteignagjalda, en stofnanir og fyrirtæki ríkissjóðs eru undanþegin þeim. Það má nefna sjúkrastofnanir, kirkjur, skóla og ýmislegt fleira.

Með lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir frá 1998 var gjaldskrá við heilbrigðiseftirlit gjörbreytt og sömuleiðis var færður yfir til sveitarfélaganna mikill kostnaður af þessu. Síðan má nefna hafnamálin. Kostnaðarhlutfalli ríkis og sveitarfélaga vegna framkvæmda á höfnum var einnig breytt og nú þurfa sveitarfélögin að greiða 25% en greiddu áður 10%. Stjórnsýslulögin höfðu líka áhrif til aukins kostnaðar fyrir sveitarfélögin, m.a. vegna þess að gerðar hafa verið strangari kröfur um breytta málsmeðferð, t.d. vegna álitsgerðar lögmanna, og ýmislegt annað. Hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár hefur haft í för með sér auknar kröfur um þjónustu frá sveitarfélögunum og svona mætti lengi telja.

Það er full ástæða til að halda þessu til haga. Ég hefði gjarnan viljað fá upplýsingar um aukna hlutdeild t.d. vegna ákvæða í EES-samningnum sem hefur verið lögbundinn hér, hversu mikið af þeim kostnaði hefur færst yfir á sveitarfélögin. Í því tilviki vil ég nefna, herra forseti, að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir lagði fram fyrirspurn í upphafi þings um það hversu mikill sá kostnaður væri sem enn hefur ekki verið svarað hér. Það finnst mér sérkennilegt þar sem ég hefði talið að í félmrn. ættu þær upplýsingar að liggja fyrir. (Félmrh.: Það er verið að vinna að svarinu.) Það er verið að vinna að svarinu, herra forseti, segir hæstv. ráðherra og það er gott að heyra, en full ástæða er einmitt til þess að þær upplýsingar komi fram hér áður en þetta mál verður fullrætt í þinginu, þ.e. í hv. félmn. sem fær það til umfjöllunar.

Einnig hefur komið fram hjá formanni Samtaka sveitarfélaga og hann hefur kveinkað sér undan því hversu mikið af þessum kostnaði hefur bitnað á sveitarfélögunum og verður fróðlegt að sjá þegar svar kemur við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur hvernig þessi kostnaður kemur niður á sveitarfélögunum og er full ástæða til að félmn. skoði þann þátt sérstaklega.

Herra forseti. Það kom mér á óvart þegar ég hlustaði á hæstv. ráðherra fjalla um barnabætur í sambandi við frv. Ég get ekki séð hvernig það tengist í raun. Hæstv. ráðherra talaði um að það kæmi íbúunum til góða í sveitarfélögunum að verið væri að skila barnabótunum aftur til barnafjölskyldnanna. En ég verð að segja að þá getum við alveg eins talað um bensínshækkanir sem koma niður á íbúum í sveitarfélögum og annars staðar. Það má auðvitað taka alls konar þætti inn í sem breyta fjárhagsstöðu og útgjöldum og tekjum fjölskyldna í landinu í framhaldi af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í hinum ýmsu málum en mér fannst þetta ekki alveg koma þessu máli við.

Ég verð einnig að segja, herra forseti, að það kemur mér á óvart að Framsfl., sem er hluti af borgarstjórnarmeirihluta Reykjavíkurborgar, skuli fara fram með þetta mál og sætta sig við að afgreiða þetta mál á þennan hátt vegna þess hvernig það kemur niður í rauninni á höfuðborgarbúum og fólkinu á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem þetta bitnar aðallega bitnar aðallega á. Maður hefði haldið að Framsfl. léti ekki Sjálfstfl. teyma sig út í þetta á þennan hátt, en því miður virðist það vera staðreyndin.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra en vitna í ræður félaga minna sem hafa gert góða grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Við viljum ekki og munum ekki sætta okkur við þetta á þennan veg og höfum lagt fram tillögur og auk þess sérstaka bókun þar sem við mótmælum þeirri leið sem farin er í þessu máli.