Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 14:44:31 (1509)

2000-11-09 14:44:31# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem á að tryggja sveitarfélögunum auknar tekjur. Ágreiningur okkar við stjórnarflokkanna í þessu máli felst í því að við teljum að ekki sé nógu langt gengið. Út af fyrir sig held ég að menn geti ekki fært fram sterk rök fyrir því að þarna sé komið nógu langt til móts við sveitarfélögin. Þau hafa lagt fram greinargóðar skýringar á auknum kostnaði undanfarinna ára sem hefur fallið á sveitarfélögin vegna nýrra verkefna sem ríkið hefur falið þeim. Sveitarfélögin hafa samið við ríkið um að taka þessi verkefni að sér en kostnaðurinn við þau er svo mikill að þarna er einungis hluta þess sem koma hefði þurft á móti skilað aftur, þ.e. aðeins hluta teknanna er skilað þangað sem þær eiga að vera miðað við verkefnin sem sveitarfélögin tóku að sér.

Það er mikið umhugsunarefni hvernig hæstv. félmrh. lagði málin upp í ræðu sinni. Hann talaði eins og sveitarstjórnarmenn væru almennt þokkalega ánægðir með þessa niðurstöðu. Það kann vel að vera að hæstv. ráðherra hitti aðra menn en ég. Ég hef talað við ýmsa sveitarstjórnarmenn og enginn þeirra hefur verið ánægður með þau býti sem er boðið upp á. Ég ætla ekki að vitna að ráði í sveitarstjórnarmenn í ræðu minni en ég ætla að lesa eina samþykkt frá aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi 27. október. Þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, haldinn að Laugum í Sælingsdal 27. október 2000, telur framlagðar niðurstöður nefndar um tekjustofna sveitarfélaga ófullnægjandi þar sem þær nægja ekki til að standa undir kostnaði vegna yfirtekinna verkefna. Jafnframt er lýst yfir áhyggjum af þeim hækkunum á staðgreiðslu sem tillögurnar kunna að fela í sér.``

Þessi tillaga var samþykkt samhljóða á þessum fundi. Ég veit að sveitarstjórnarmenn eru ekki kátir yfir þeim málalokum sem hér eru. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því að hæstv. ríkisstjórn og hv. þm. stjórnarflokkanna telja sig feta þröngan stíg og vilja sjálfsagt ekki að það bætist í tilefnin til aukinnar verðbólgu og spennu í þjóðfélaginu en það kemur niður á sveitarfélögunum. Þau eiga áfram að safna skuldum, sem sum þeirra munu örugglega gera, en öll önnur að halda að sér höndum í bráðnauðsynlegum framkvæmdum og þjónustu sem þau þurfa að inna af hendi. Þessi hækkun á útsvarinu mun auðvitað skila sér, eins og hv. alþm. vita, ákaflega misjafnt til sveitarfélaga.

Það liggur fyrir að útsvarið skilar sér mjög misjafnt til sveitarfélaganna eins og er og svo mun einnig um þá hækkun sem hér um ræðir. Talið er að útsvarið skili sveitarfélögunum allt frá 100 þús. kr. á gjaldanda og upp í 270 þús. kr. Meðaltalið er rúmlega 190 þús. kr. Þessi hækkun mun líklega skila sér í að vera allt frá 8 þús. kr. upp í 22 þús. kr. á gjaldanda. Þau sveitarfélög sem minnst bera úr býtum fá þannig ekki nema þriðjunginn af því sem þau sem mest geta fengið út úr svona hækkun. Mismunur á milli sveitarfélaga mun því örugglega vaxa eftir þessar breytingar.

Ég vil gera að umtalsefni þá breytingu sem ætlunin er að gera á skatti af íbúðarhúsnæði. Nú vil ég taka það skýrt fram í upphafi að ég er ekki á móti þeirri breytingu. Ég vil hins vegar að hlutirnir heiti réttum nöfnum. Það verður að líta á þessa breytingu sem byggðaaðgerð. Hún styrkir þau byggðarlög sem standa lágt og þar sem íbúðarhúsnæði fellur í verði af einhverjum ástæðum, yfirleitt vegna atvinnumála eða fólksfækkunar í viðkomandi byggðarlagi, þar sem erfitt er að selja íbúðarhúsnæði með þeim afleiðingum að verðið fellur.

Ég held að það liggi í augum uppi að auðvitað virkar þetta ekkert öðruvísi. Þetta hlýtur að vera hugsað af hæstv. ríkisstjórn sem byggðaaðgerð. 1.100 millj. kr. á ári eru töluverður peningur í þessari byggðaaðgerð. En við skulum láta þetta heita það. Að mínu viti á að líta þannig á þetta mál. Breytingin mun virka svona. Þar sem byggðarlög fara niður á við falla húseignir í verði og þar lækka fasteignagjöld.

Sveitarfélögin fengu það á sínum tíma fram að fasteignagjöldin væru miðuð við fasteignagjöldin á Reykjavíkursvæðinu undir þeim kláru formerkjum að fasteignagjöldin væru þjónustugjöld til sveitarfélaganna vegna fasteignanna. Það var ekki ágreiningur um það á sínum tíma að þannig ætti að líta á það. Ríkisstjórnin, með því að fara þessa leið, breytir fasteignagjöldunum úr þjónustugjöldum til sveitarfélaganna í eignarskatt og lætur eignarskattinn, sem eðlilegt er ef menn líta á þetta sem eignarskatt, taka mið af því verðmæti viðkomandi húsa eða eigna. Þar með hafa menn breytt eðli þessarar innheimtu. Auðvitað átti fasteignaskatturinn aldrei að heita fasteignaskattur úr því að menn ætluðu sér að láta hann vera þjónustuskatt til sveitarfélaganna. Ef hann hefði heitið eitthvað annað en fasteignaskattur þá hefðu menn aldrei tekið þetta upp með þeim hætti sem hér var gert. Þetta eru klárlega fjármunir sem sveitarfélögin hafa þurft til að sinna þjónustu við íbúana vegna eigna þeirra.

Mér finnst því eðlilegt að líta á þessa aðgerð sem byggðaaðgerð og hef ekkert nema gott um það að segja að hv. ríkisstjórn vilji styðja við bakið á íbúum sveitarfélaga þar sem húseignir falla í verði vegna minni atvinnu eða fólksfækkunar. Ástæður þess eru auðvitað margvíslegar en ég ætla ekki að fara nánar út í þá umræðu hér.

Ég tel hins vegar að það bráðvanti skilning hjá hæstv. ríkisstjórn á vanda sveitarfélaganna. Það vantar sárlega stefnu í málefnum sveitarfélaganna, einhverja framtíðarhugsun um stærð og umfang sveitarfélaga. Ég veit að hv. ráðherra vill hugsa hærra en þetta. Ég er viss um að hann hefur farið yfir þau mál þann tíma sem hann hefur setið í ráðuneytinu og velt fyrir sér hver framtíð íslenskra sveitarfélaga eigi að vera. Hann hlýtur að hafa komist að þeirri niðurstöðu að ef sveitarfélögin á landsbyggðinni eiga að lifa af þurfi þau að stækka og styrkjast og tryggja þurfi þeim tekjustofna sem duga til að veita fólki sambærilega þjónustu hvar sem er á landinu.

En það er ekki nóg að hugsa um hlutina það þarf líka að koma þeim í framkvæmd. Það gerist ekki með þessu frv. Það er einungis verið að framlengja líf sjúklings í öndunarvél. Við megum þakka fyrir ef ástand hans helst óbreytt. Ef hægt verður að lýsa því svo að ástand hans sé stöðugt þá getum við þakkað fyrir það miðað við þessa aðgerð. Það verður ekki meira.

Nú er aftur á móti lag. Nú hefði verið hægt að gera meira. Ríkissjóður bólgnar út af peningum og sveitarfélögin eru að safna skuldum. Ég get ekki séð neina skynsemi í að láta það ástand halda áfram. Það verður ekki stöðvað með þeirri breytingu sem hérna er verið að leggja til. Ég er þess vegna afskaplega óánægður með hve stutt er gengið. Ég tel líka og vil taka undir þá gagnrýni að endurskoða þurfi tekjustofna sveitarfélaganna frá grunni. Það gengur ekki lengur að láta Jöfnunarsjóð sveitarfélaga leika sama hlutverk og hann hefur gert undanfarin ár og er alltaf að aukast. Það verður að tryggja sveitarfélögunum tekjustofna sem eru tengdir íbúunum á svæðinu og þeim fyrirtækjum sem þar eru rekin með beinum hætti.

Auðvitað hefur þetta breyst á undanförnum árum. Þarna hefur verið að snarast á skepnunni alveg frá upphafi, frá því að aðstöðugjaldið var tekið af. Það er kannski rétt að minna á feril hæstv. forsrh. í því sambandi sem virðist hafa það efst á stefnuskrá sinni að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína sem stjórna Reykjavíkurborg. Þegar hann yfirgaf borgarstjórastólinn í þeirri frægu borg og gekk yfir í Stjórnarráðið lét hann það verða sitt fyrsta verk að taka tekjustofnana af borginni. Hann hafði áður safnað skuldum fyrir þessa borg með því að byggja fræg hús og monthallir en labbaði síðan beint yfir í Stjórnarráðið og tók tekjustofnana af borginni. Hann og félagar hans í Sjálfstfl. gagnrýna síðan þá sem eru við stjórn í Reykjavíkurborg núna fyrir skuldahala og að þeir standi sig ekki nógu vel í fjármálunum. Þetta er ferill hæstv. forsrh. í þessu efni og enn er haldið áfram.

Framsfl. er teymdur í múlnum til að gera þessa hluti eins ömurlega lélega og mögulegt er að komast frá. Þar virðist ekki nægilegt skap í mönnum til að berja í borðið. Þeir eiga þó aðild að ýmsum sveitarstjórnum og þar á meðal stjórn höfuðborgarinnar. Þeir hafa hvað eftir annað sýnt, hæstv. ráðherrar og hv. þm. Sjálfstfl., að þeir geta aldrei á sér setið ef þeir sjá tækifæri til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína í stjórn Reykjavíkurborgar.

Nú er svo komið, hæstv. forseti, ég ætla að koma að því aftur, að jöfnunarsjóðurinn leggur til um 25% af tekjum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru sjálf að borga stóran hluta af þessu til sveitarfélaganna. Það þyrfti að fara fram rannsókn á því hvers konar tekjutilfærslu er um að ræða, meira og minna, frá ríkinu, tilfærslu sem orðið hefur til á undanförnum árum og enginn veit lengur hve mikil hún er. Sveitarfélögin greiða t.d. skipulagsgjald. Ef þau sjá um sitt skipulag sjálf þá fá þau helminginn felldan niður en halda áfram að borga helminginn til Skipulagsstofnunar. Þessir peningar eru notaðir til þess að greiða skipulag fyrir önnur sveitarfélög. Hvað er það? Það er auðvitað jöfnunaraðgerð og allt gott um það en menn virðast ekki kæra sig um að finna út hvernig þessi mál eru í raun og veru, reyna að hafa þetta í einhverjum einum farvegi þannig að þeir geti fylgst með, séð hvað er á seyði og hve langt er gengið.

Það er greinilegt að sveitarfélögin í landinu halda sameiginlega uppi sveitarfélögum sem hafa lélega afkomumöguleika. Þau eru með því að styðja við óhagræðið af sveitarfélagasamsetningunni í landinu. Svona hefur þetta verið til margra ára. Yfir þetta þarf að fara. Það er hluti af vanda sveitarfélaganna að mörg sveitarfélög eru ekki nógu burðug til að sinna hlutverki sínu á eðlilegan hátt. Þau eru ekki tilbúin að taka við verkefnum frá ríkinu sem þarf að flytja til þeirra, þó það væri ekki nema af byggðaástæðum. En af nánast öllum ástæðum sem hægt er að tiltaka vegna þarfa íbúnanna er betra að sveitarfélögin sjái um alla þá þjónustu sem hægt er að kalla nærþjónustu og líka fleiri tegundir af þjónustu. Það hefur sýnt sig að eftir því sem þjónustan er nær fólkinu, því betri verður hún og því betur er þá metið hve mikil þörf er á henni.

[15:00]

Mig langar til að bera fram spurningu til hæstv. ráðherra vegna þess að ég átta mig ekki nægilega vel á hvað eitt atriði þýðir. Það er í sambandi við 2. gr. frv. þar sem verið er að samræma innheimtu á fasteignagjöldum á bújörðum, þ.e. eignum sem eru í sveitum landsins sem eru nýttar til einhvers annars en búskapar. Mig langar að spyrja hvort hæstv. ráðherra er viss um að sú breyting þýði ekki að ef lönd og jarðir sem farin eru úr búskap verði seld á háu verði í einhverju tilteknu byggðarlagi, sem gerist öðru hvoru nú til dags, þá mundi það valda því að eignir á því svæði fari allt í einu að bera miklu hærri skatta en áður. Nú er það þannig að margar jarðir eru að fara úr byggð og hafa farið úr byggð á undanförnum árum. En menn eiga þær kannski áfram sem hafa verið bændur á þessum jörðum þó enginn búskapur sé á þeim. Verður þessi breyting þá til þess að menn sem eiga slík lönd og eignir verði að fara að borga fasteignagjöld sem miðast þá við sölu á viðkomandi svæði sem hefur kannski orðið á einhverri jörð sem einhver vellríkur hefur haft sérstakan áhuga á að kaupa til þess að byggja sér sumarhöll eða ástarhof?

Ég vil síðan, svo ég fari ekki að endurtaka mikið af því sem hv. þm. og ráðherrar hafa verið að tala um á undan, ljúka þessu með því að segja: Ég vona sannarlega að menn láti ekki staðar numið við þetta. Ég vona satt að segja að í hv. nefnd verði farið yfir þetta mál og reynt að kafa ofan í það hve langt þurfi að ganga til þess að lagfæra frv. þannig að sveitarfélögin haldi ekki áfram að safna skuldum og að menn a.m.k. líti þá á þessa breytingu í vetur sem áfanga og að næsta vetur verði tekinn annar áfangi til þess að koma til móts við sveitarfélögin.

Ég endurtek að ég tel að það þurfi kannski sárlegast að ná fram stefnu í málefnum sveitarfélaganna þar sem verður horft yfir allt sviðið og menn geri sér grein fyrir því hvernig framtíð eigi að vera hjá sveitarfélögunum á Íslandi. Þar kemur inn það sem ég var að ræða um áðan: Stækkun og efling sveitarfélaganna, flutningur verkefna frá ríkinu til þeirra og nýjar menntastofnanir og opinber þjónusta sem á að vera í hverju burðugu sveitarfélagi á Íslandi. Sýna þarf mikinn manndóm og reisn í þessum málum öllum ef hægt á að vera að snúa við þeirri öfugþróun sem nú hefur verið lengi úti um landsbyggðina og það er ekki gert með því átaki sem hér er í því að rétta hlut sveitarfélaganna í landinu.