Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 15:37:45 (1518)

2000-11-09 15:37:45# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. reynir allt hvað hann getur að gera lítið úr þessum tillögum. Það er út af fyrir sig mannlegt. Hins vegar talar Samfylkingin út og suður og upp og niður í þessu máli. Hv. þm. segir að við framsóknarmenn höfum gleymt landsbyggðinni í markaðssetningu okkar á höfuðborgarsvæðinu. Síðan talar hann um að það hafi verið farið illa með höfuðborgarsvæðið í þessu og síðan er talað um skattahækkanir og hv. formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu fyrir nokkrum dögum að það hafi verið rangt að lækka skatta. Það var í umræðu um fjáraukalög fyrir nokkrum dögum. Það er náttúrlega enginn botn í þessum málflutningi yfirleitt (Gripið fram í: Hver er að ætlast til þess?) og er skylt að vekja athygli á því.

Beint var til mín einni beinni spurningu og það er ástæða þess að ég fór í andsvar, þ.e. hvernig fasteignagjaldalækkunin mundi nýtast skattgreiðendum á Austurlandi þegar útsvar á þeim yrði hækkað árið 2002. Ég get upplýst að til eru skattgreiðendur fasteignagjalda á Austurlandi þar sem þessi gjöld munu lækka um ein 60%. (Gripið fram í: Hvað margir?) Hvað margir? Þeir eru því miður allt of margir. Þar eru byggðarlög þar sem fasteignamatið er mjög lágt (Gripið fram í.) og þó að sveitarfélögin komi til með að nota útsvarshækkunarheilmildina fullyrði ég að þarna er verið að bæta úr mjög tilfinnanlegu óréttlæti sem er alveg sérmál. Ég er ekkert að rifja upp hvenær þetta var tekið upp. Þetta var tekið upp fyrir tíu árum samkvæmt kröfu sveitarfélaganna og hefur verið óbreytt síðan. En núna, vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi, er verið að lagfæra þetta óréttlæti.